Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2019 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs í Víetnam

Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra og Nguyễn Phú Trọng, forseti Víetnams - myndUtanríkisráðuneytið
Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra afhenti í gær víetnömskum stjórnvöldum trúnaðarbréf. Nguyễn Phú Trọng, forseti Víetnams veitti trúnaðarbréfinu viðtöku. Gunnar Snorri er sendiherra Íslands í Kína en umdæmisríki sendiráðsins í Peking eru auk þess Mongólía, Suður- og Norður Kórea, Víetnam, Kambódía, Laos og Taíland.

Samskipti Íslands og Víetnam hafa farið stigvaxandi samfara aukinni verslun á milli ríkjanna. Sem dæmi þá þrefaldaðist útflutningur Íslands til Víetnam á tímabilinu frá 2010-2017 og svipaða sögu er að segja af innflutningi Íslands frá Víetnam. Yfirstandandi eru fríverslunarviðræður milli EFTA, sem Ísland á aðild að, og Víetnams sem vonast er til að muni auka viðskipti ríkjanna enn frekar. Helstu útflutningsvörur Íslands til Víetnams eru sjávarafurðir og þá helst grálúða.

Viljayfirlýsing um samstarf á svið jarðhitanýtingar frá árinu 2015 er einnig í gildi milli íslenskra og víetnamskra stjórnvalda sem skapar enn frekari tækifæri til útflutnings og sölu á íslensku hugviti og þjónustu. Síðast en ekki síst býr á Íslandi fjöldi fólks af víetnömsku bergi brotið sem auðgað hefur íslenskt mannlíf og samfélag í menningarlegu og efnahagslegu tilliti. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum