Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Bætt kostnaðarstjórnun í framkvæmdum á vegum ríkisins

Nokkrar af þeim framkvæmdum sem fjallað er um í skýrslu FSR - myndFramkvæmdasýsla ríkisins

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fagnar niðurstöðum nýrrar skýrslu Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR) sem sýnir að kostnaðarstjórnun verkefna ríkisins hefur batnað síðustu ár og standist alþjóðlegan samanburð. Þá sýnir skýrslan fram á mikilvægi vandaðrar áætlunargerðar í framkvæmdum líkt og við aðra stóra útgjaldaliði ríkisins. Markmið Framkvæmdasýslunnar um að gera enn betur í áætlunargerð sinni á næstu árum er í takti við stefnu núverandi ríkisstjórnar um aukið aðhald og ábyrgð í ríkisfjármálunum.

Í skýrslunni, sem nefnist „Lykiltölur úr skilamötum FSR 1998-2016: Samanburður raunkostnaðar og áætlana“, er fjallað um allar framkvæmdir á vegum FSR á árunum 1998-2016, alls 139 talsins. Í skýrslunni er sýnt fram á að framúrkeyrsla raunkostnaðar, í þessum verkefnum, hefur farið minnkandi. Á fyrri hluta tímabilsins, 1998–2006, var hún 7,7% en á seinni hluta tímabilsins, 2007–2016, var hún komin niður í 1,9%.

Ljóst er að skýrari löggjöf um opinberar framkvæmdir, opinber innkaup og krafa um nákvæmari og betri hönnunargögn ásamt meiri kostnaðaraðgát í þessum framkvæmdum síðustu ár hefur skilað sér. FSR hefur á undanförnum árum innleitt nýtt og betrumbætt verklag við stjórnun verkefna og aðgát hönnunar og kostnaðar sem hefur skilað verulegum árangri fyrir íslenska ríkið sem verkkaupa. Á næstu árum mun ríkið standa fyrir stórum og áhættusömum framkvæmdum. Enn eru tækifæri á að bæta stjórnun verkefna og munu fjármála- og efnahagsráðuneytið og Framkvæmdasýsla ríkisins í samstarfi við ýmsa aðila vinna að því að auka árangur á þessu sviði.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum