Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sameiginleg yfirlýsing Norðurlandanna um kolefnishlutleysi

  Frá fundi norrænu ráðherranna í Helsinki í dag. - mynd

Sameiginleg yfirlýsing Norðurlandanna um loftslagsmál var undirrituð á fundi norrænu forsætis- og umhverfisráðherranna um loftslagsmál í Helsinki í dag. Þar er lögð áhersla á að Norðurlöndin vilji vera leiðandi í loftslagsmálum. Meðal þess sem gert verður er að efla samvinnu á fjölmörgum sviðum loftslagsmála, til dæmis hvað varðar kolefnishlutleysi.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisáðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra sóttu fundinn og undirritaði forsætisráðherra yfirlýsinguna fyrir Íslands hönd.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði að loknum fundinum:
„Loftslagsmálin eru helsta mál 21. aldarinnar. Mér finnst yfirlýsingin endurspegla það. Það er mikill vilji hjá öllum Norðurlöndunum til að verða leiðandi í loftslagsmálum í heiminum, bæði með því að sýna gott fordæmi og aukinn metnað við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Yfirlýsingin kemur sérstaklega inn á kolefnishlutleysi en öll ríkin stefna að því fyrir miðbik aldarinnar. Við munum auka samvinnu okkar á sviði loftslagsmála. Það kemur svo í hlut umhverfisráðherranna að fylgja eftir yfirlýsingu forsætisráðherranna. Fyrsti fundur okkar um það verður í mars á þessu ári hér á Íslandi.“

Þá átti Guðmundur Ingi Guðbrandsson tvíhliða fund með Kimmo Tiilikainen, umhverfisráðherra Finnlands um loftslagsmál og plastmengun í gær.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra með Kimmo Tiilikainen, umhverfisráðherra Finnlands í Helsinki í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum