Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2019 Félagsmálaráðuneytið

Endurbætt útgáfa félagsvísa

Frá og með 31. janúar n.k. verða nýir og endurbættir félagsvísar gefnir út.

Forsaga félagsvísa er sú að í mars 2009 samþykktu stjórnvöld að tillögu Velferðarvaktarinnar að setja af stað vinnu við að safna saman ýmiskonar samfélagslegum mælingum undir yfirskriftinni félagsvísar.

Markmið félagsvísa

Markmið vísanna var að draga upp heildarmynd af ástandi þjóðarinnar þar sem velferð, heilbrigði, vellíðan og þarfir íbúanna voru í brennidepli. Félagsvísarnir hafa nýst sem tæki til að greina hópa í vanda. Þeir hafa auðveldað stjórnvöldum, hagsmunasamtökum og almenningi að fylgjast með þróun í samfélaginu og stutt við stefnumótun. Á grundvelli samnings sem velferðarráðuneytið gerði við Hagstofu Íslands voru fyrstu félagsvísarnir gefnir út árið 2012 og hafa þeir verið gefnir út árlega síðan. Í síðustu útgáfu félagsvísa voru vísarnir 45 og þeim skipt í flokkana lýðfræði, menntun, atvinna, lífskjör og velferð, heilsa og börn.

Tilefni endurskoðunar

Á síðustu árum hefur orðið mikil þróun í sams konar vísum hjá öðrum hagstofum og alþjóðastofnunum sem gaf tilefni til endurskoðunar á félagsvísum. Markmið endurskoðunarinnar er að skýra nánar hvað vísarnir eigi að mæla, meta gæði mælinga og útskýra hugtök félagsvísa.

Miðlun félagsvísa

Félagsvísarnir verða framvegis birtir á vef Hagstofu Íslands en jafnframt verður settur tengill í félagsvísa á vef félagsmálaráðuneytisins. Upplýsingunum verður miðlað í gagnvirkum töflum, þar sem notandinn getur valið félagsvísi, tímabil og niðurbrot.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira