Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Unnið að verkefnum krabbameinsáætlunar með gildistíma til ársins 2030

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að vinna að framkvæmd verkefna í samræmi við tillögu ráðgjafarhóps sem vann að mótun íslenskrar krabbameinsáætlunar á árunum 2013 – 2016. Ráðherra hefur ákveðið að gildistími áætlunarinnar verði til ársins 2030, til samræmis við tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu sem nú liggur fyrir Alþingi.

Ráðgjafarhópurinn var skipaður af þáverandi velferðarráðherra í byrjun árs 2013 og falið það hlutverk að móta stefnu og meginmarkmið á sviði forvarna og meðferðar vegna krabbameina til ársins 2020. Skýrsla hópsins með tillögu að íslenskri krabbameinsáætlun var birt á vef Stjórnarráðsins í júlí 2017 en formleg afstaða til framkvæmdar þeirra verkefna sem áætlunin tekur til hefur ekki verið tekin fyrr en nú.

Skýrsla ráðgjafarhópsins er afar viðamikil og tekur til margra þátta. Fjallað er um faraldsfræði krabbameina, skráningar þeirra, forvarnir og heilsugæslu, rannsóknir og gæðastjórnun, meðferðarþætti og mannafla, endurhæfingu, eftirfylgni og líknarmeðferð. Margt í krabbameinsáætlun er nú þegar komið til framkvæmda eða er í vinnslu. Unnið er öflugt heilsueflandi starf á vegum Embættis landlæknis í samvinnu við sveitarfélögin í landinu og býr nú yfir 80% landsmanna í sveitarfélögum sem geta kallað sig heilsueflandi samfélag. Þá hefur Embætti landlæknis skipað fagráð um skimun fyrir krabbameinum á Íslandi sem hefur til skoðunar framtíðarfyrirkomulag skimunar. Flestir þeir innviðir sem nefndir eru í krabbameinsáætlun eru fyrir hendi í heilbrigðiskerfinu. Samfellu skortir þó oft í þjónustuna, takmarkaðir möguleikar á endurhæfingu og ekki nógu greitt aðgengi sjúklinga og aðstandenda að upplýsingum. Í krabbameinsáætluninni eru sett fram 10 aðalmarkmið með tilheyrandi undirmarkmiðum, tillögum að aðgerðum og árangursviðmiðum.

Í skýrslu ráðgjafarhópsins er lagt til að sett verði á fót verkefnisstjórn til að vinna að framgangi áætlunarinnar. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðuneytið taki það hlutverk að sér og vinni að framkvæmdinni í samstarfi við heilbrigðisstofnanir og aðra aðila sem hlut eiga að máli. Markmiðum og tilheyrandi aðgerðum/árangursviðmiðum krabbameinsáætlunarinnar verður forgangsraðað og ábyrgð á framkvæmd þeirra komið til þeirra stofnana sem augljóslega gegna meginhlutverki í framkvæmd þeirra. Stofnunum verði eftir atvikum falið að koma aðgerðum í framkvæmd eða gera ráðuneytinu grein fyrir hindrunum við að koma viðkomandi aðgerðum í framkvæmd og ná árangursviðmiðum. Áætlunin verði jafnframt tekin til skoðunar við gerð fjármálaáætlunar á ári hverju.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum