Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2019 Matvælaráðuneytið

Skýrsla starfshóps um úthlutun tollkvóta

Starfshópur um úthlutun tollkvóta landbúnaðarvara hefur skilað skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í skýrslunni leggur meirihluti hópsins til breytingar á núverandi útboðskerfi þar sem tollkvótum er úthlutað til hæstbjóðanda og í stað þess verði farin svokölluð „hollensk útboðsleið“. Reikna má með að samkvæmt þeirri útboðsleið gæti kostnaður vegna útboða tollkvóta lækkað talsvert og ávinningur neytenda aukast frá því sem nú er. Jafnframt leggur hópurinn til að allur úthlutunarferill tollkvóta verði nútímavæddur og fari fram með rafrænum hætti.

Ávinningur komist til neytenda í formi lægra vöruverðs
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skipaði starfshópinn í júní 2018 og var hlutverk hans að endurskoða núverandi fyrirkomulag um úthlutun tollkvóta og finna leiðir til þess að koma ávinningnum sem skapast með þessum takmörkuðu gæðum í meira mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs.

Lægra útboðsverð
Meirihluti starfshópsins leggur til að tollkvótum verði úthlutað með útboði en stuðst verði við svokallað hollenskt útboð (e. Dutch auction). Útboðsverð innan þess fyrirkomulags yrði jafnt lægsta samþykkta tilboði sem jafnframt ákvarðar sama verð fyrir allt magn þess tollkvóta sem í boði er. Meginbreytingin sem fælist í þeirri úthlutunaraðferð er að útboðsverð tollkvóta yrði að öllum líkindum talsvert lægra en nú er. Sjá nánar í skýringarmynd neðst í þessari frétt.

Þá telur starfshópurinn forgangsmál að umsýsla og úthlutun tollkvóta verði færð sem mest á rafrænt form og að upplýsingar um verð og magn verði gerðar aðgengilegar. Jafnframt er lagt til að heimildir fyrir innflutning á svokölluðum opnum tollkvótum verði afnumdar í núverandi mynd og þar með verði ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara lögð niður. Þess í stað yrði byggt á sögulegri reynslu um opna tollkvóta, en algengt er að veittir séu tímabundnir tollkvótar, t.d. vegna árstíðabundinna landbúnaðarvara. Myndist skortur á öðrum landbúnaðarvörum verða tollkvótar boðnir út með sama hætti og samningsbundnir kvótar.

Starfshópinn skipuðu eftirfarandi:

  • Óli Björn Kárason, alþingismaður, formaður
  • Arnar Freyr Einarsson, hagfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
  • Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna
  • Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands
  • Tryggvi Másson, sérfræðingur á efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Meginmarkmið þessarar vinnu var að finna leiðir til að koma ávinningnum sem skapast með þessum tollkvótum í ríkari mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs. Mér virðist sem sú tillaga sem hópurinn leggur til vera í góðu samræmi við þetta markmið og lýst því heilt yfir vel á hana. Næsta skref er að vinna áfram með þessar niðurstöður hér í ráðuneytinu og vonandi kynna mögulegar breytingar á núgildandi regluverki síðar á þessu ári.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum