Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2019 Utanríkisráðuneytið

Sigríður Snævarr sæmd þakkarviðurkenningu FKA

Sigríður Snævarr á samkomu FKA í gær - myndUtanríkisráðuneytið

Félag kvenna í atvinnulífinu afhenti í gær sínar árlegu viðurkenningar við hátíðlega athöfn í Gamla bíói. Viðurkenningar FKA hafa verið veittar allt frá stofnun félagsins, sem fagnar tuttugu ára starfsafmæli á árinu. 

Á samkomunni var Sigríður Á. Snævarr sendiherra sæmd þakkarviðurkenningu FKA. Sigríður er í hópi reynslumesta starfsfólks utanríkisþjónustunnar Hún hefur gegnt sendiherrastöðu í hátt í þrjá áratugi en árið 1991 varð hún fyrst íslenskra kvenna til að hljóta skipun sendiherra. Frá 2017 hefur hún veitt deild heimasendiherra forstöðu en auk þess er hún sendiherra Íslands gagnvart Páfagarði, Singapúr og Ástralíu. 

„Sigríður braut blað í sögu Íslands árið 1991 þegar hún var skipuð fyrsti íslenski kvensendiherrann, en hún á að baki fjörutíu ára farsælan feril í utanríkisráðuneytinu. Á einstökum ferli, bæði í stjórnsýslu og atvinnulífi, hefur hún helgað sig því að gæta hagsmuna lands og þjóðar og leita tækifæra fyrir Ísland á alþjóðlegri grundu,“ segir meðal annars í umsögn dómnefndar um Sigríði. 

Auk Sigríðar fengu þær Margrét Kristmannsdóttir og Helga Valfells viðurkenningar FKA í gær. Helga var sæmd hvatningarviðurkenningu FKA og Margrét FKA-viðurkenningunni. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira