Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2019 Utanríkisráðuneytið

Yfirlýsing utanríkisráðherra vegna ástandsins í Venesúela

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur lýst yfir stuðningi við Juan Guaidó, sem forseta Venesúela til bráðabirgða. 

Ákvörðunin er tekin í ljósi aðstæðna í Venesúela en stjórnmála- og efnahagsástandið þar hefur verið í uppnámi um margra ára skeið. Réttkjörið þjóðþing hefur meðal annars verið svipt völdum og forsetakosningar sem haldnar voru í fyrra lýstar meingallaðar og ekki endurspeglað vilja fólksins. Þá hafa þrjár milljónir landsmanna flúið land og skortur er á brýnum nauðsynjum. 

Juan Guaidó, sem er lýðræðislega réttkjörinn forseti hins valdalausa þjóðþings, lýsti sig nýverið forseta Venesúela til bráðabirgða. Undanfarna daga hafa fjölmörg ríki, bæði grannríki Venesúela og helstu vinaríki Íslands, lýst yfir stuðningi við Guaidó. Um leið hafa þau skorað á stjórnvöld í Venesúela að koma aftur á lýðræði, boða til nýrra forsetakosninga og virða borgaraleg réttindi íbúa landsins. 

Í yfirlýsingu á Twitter í gær lýsti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra því yfir að Ísland styddi Juan Guaidó sem forseta Venesúela til bráðabirgða. Boðað skyldi til frjálsra og löglegra kosninga og vilji fólksins virtur. Áður en utanríkisráðherra lýsti þessu yfir  upplýsti hann utanríkismálanefnd Alþingis. 

Utanríkisráðherra hefur enn fremur látið sig málefni Venesúela varða á alþjóðavettvangi á undanliðnum mánuðum, meðal annars í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þá hefur ráðherra einnig, í samvinnu við SOS Barnaþorpin á Íslandi, nýlega veitt fjárframlag upp á rúmar 20 milljónir króna til aðstoðar flóttafjölskyldum frá Venesúela.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum