Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2019 Matvælaráðuneytið

Ákvörðun um hvalveiðar

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur í dag undirritað reglugerð sem heimilar áframhaldandi veiðar á langreyði og hrefnu árin 2019–2023. Nær ákvörðunin til veiða á fimm ára tímabili, eins og fyrri reglugerð gerði.

Ákvörðun þessi byggist á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, en jafnframt hafði ráðherra hliðsjón af nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Við ákvörðun sína studdist ráðherra einnig við minnisblað frá Hafrannsóknastofnun, sem hann óskaði eftir í kjölfar skýrslu Hagfræðistofnunar. Þetta minnisblað frá Hafrannsóknastofnun hefur verið birt á heimasíðu ráðuneytisins.

Hafrannsóknastofnun ráðleggur að árlegar veiðar á tímabilinu 2018–2025 verði að hámarki 161 langreyður á veiðisvæðinu Austur-Grænland/Vestur-Ísland og að hámarki 48 dýr á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar og 217 hrefnur á íslenska landgrunnssvæðinu.

Ráðgjöf sína byggir stofnunin á veiðistjórnunarlíkani vísindanefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (IWC), sem er eitt það varfærnasta sem þróað hefur verið fyrir nýtingu á nokkrum dýrastofni í heiminum.

Síðan hvalatalningar hófust 1987 hefur langreyði fjölgað jafnt og þétt við Ísland. Við síðustu talningu 2015 var fjöldinn á skilgreindu stofnsvæði (Mið-Norður-Atlantshaf) metinn um 37 þúsund dýr sem jafngildir um þreföldun frá 1987.

Hrefnu hefur fækkað mikið á grunnsævi við Ísland frá síðustu aldamótum. Ekki er þó talið að stofninn hafi minnkað heldur fremur að útbreiðslan hafi færst norður vegna minna fæðuframboðs hér á sumrin (síli og loðna). Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar tekur tillit til þessarar þróunar í útbreiðslu hrefnustofnsins.

Í fyrrgreindu minnisblaði Hafrannsóknastofnunar er vísað til þess að Náttúrufræðistofnun Íslands hefur nú í fyrsta sinn gefið út svæðisbundinn válista fyrir íslensk spendýr, þar sem beitt er sömu viðmiðum og á heimslista Alþjóðanáttúruverndarsjóðsins (IUCN). Þar flokkast langreyður sem „ekki í hættu“ sem staðfestir enn frekar gott ástand stofnsins hér við land, og það á einnig við um hrefnu, sandreyði og hnúfubak, auk smærri tannhvala.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum