Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2019 Utanríkisráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Ísland fullgildir bókun við samning um bann við pyntingum

Yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um að Ísland hefði lokið fullgildingu OPCAT - mynd

Ísland hefur fullgilt valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum, og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi refsingu (OPCAT). Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fékk fullgildingarskjalið afhent í vikunni og í gær var því svo lýst yfir að fullgildingu af hálfu Íslands væri lokið. 

Bókunin felur í sér eftirlit sjálfstæðra aðila sem falið er að heimsækja reglulega stofnanir þar sem frelsissviptir einstaklingar eru vistaðir. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að pyntingar eða önnur grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist. Annars vegar er um að ræða eftirlit alþjóðlegar nefndar og hins vegar eftirlit sem komið er á fót innan hvers aðildarríkis samkvæmt fyrirmælum bókunarinnar. Hún var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 2002 og undirrituð fyrir Íslands hönd tæpu ári síðar. 

„Ég fagna því að nú sé búið sé að fullgilda þessa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum. Þótt dæmi um pyntingar eða aðra grimmilega eða vanvirðandi meðferð séu sem betur fer fá á Íslandi, að minnsta kosti í seinni tíð, er þessi áfangi mikilvægur liður í að tryggja að slíkt viðgangist ekki. Við getum aldrei liðið pyntingar, hvorki hér á landi né erlendis“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. 

Umboðsmaður Alþingis kemur til með að annast eftirlit á grundvelli bókunarinnar hér á landi. Sambærilegt fyrirkomulag tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum og víða í Evrópu. Lögum um umboðsmann Alþingis var breytt með lögum nr. 147/2018, sem tóku gildi 8. janúar sl., og honum falið umrætt eftirlit. 

“Í öllum meginatriðum er framkvæmd löggjafar hér á landi í samræmi við hina valfrjálsu bókun Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi refsingu. Umboðsmanni Alþingis var falið að annast eftirlit á grundvelli bókunarinnar og hefur hann sinnt því vel og meðal annas óskað svara frá dómsmálaráðuneytinu varðandi vistun fanga á lögreglustöðvum. Þeim athugasemdum hefur verið mætt með opnun fangelsis á Hólmsheiði. Þá hefur hann einnig tekið til skoðunar stöðu geðveikra fanga og þörf á skýrari reglum um vistun fanga á öryggisdeildum. Dómsmálaráðuneytið hefur tekið allar athugasemdir til skoðunar og þannig staðið fyrir nauðsynlegum úrbótum til að fullnægja hinni valfrjálsu bókun.´´ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra."

Forseti Íslands fullgilti bókunina með undirskrift sinni 29. janúar sl. en minnisblað um fullgildinguna var kynnt í ríkisstjórn fyrr í mánuðinum. Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum afhenti skrifstofu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna fullgildingarskjölin 19. febrúar. Í gær var því svo lýst yfir af hálfu Sameinuðu þjóðanna að Ísland hefði fullgilt bókunina. 

Bókunin nær til allra staða sem vista frelsissvipta einstaklinga, jafnvel þó að vistunin vari einungis í skamman tíma. Þá á hún við óháð því hvort ákvörðun um frelsissviptingu hafi verið tekin af yfirvöldum eða hún leiði af því fyrirkomulagi sem haft er við vistunina eða ástandi þess sem í hlut á. Er því um að ræða eftirlit með ýmsum stöðum þar sem einstaklingar dvelja í lengri eða skemmri tíma, svo sem fangelsum, lögreglustöðvum, heimilum á vegum barnaverndaryfirvalda, úrræðum fyrir fólk með geðraskanir eða geðfatlanir, dvalar- og hjúkrunarheimilum, sambýlum eða öðrum búsetuúrræðum. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 16 Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum