Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin á Íslandi 2020

Verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna verður haldin í Hörpu í desember árið 2020. Stofnað var til verðlaunanna árið 1988 en megintilgangur þeirra er að efla og vekja athygli á evrópskri kvikmyndagerð. Um viðamikið samstarfsverkefni er að ræða milli ríkis og borgar og hafa viðræður við Evrópsku kvikmyndaakademíuna staðið yfir í nokkurn tíma en tvær aðrar borgir sóttust eftir að halda hátíðina. Ráðgert er að samhliða henni fari fram fjölmargir hliðarviðburðir tengdir evrópskum kvikmyndum og kvikmyndagerð.

Hátíðin er haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu. Hátíðin hefur laðað til sín erlenda gesti víða að úr kvikmyndaheiminum og vel á annað hundrað erlenda blaðamenn. Því má búast við að hátíðin í Reykjavík hljóti mikla umfjöllun og stuðli að öflugri kynningu og markaðssetningu á Íslandi og Reykjavík sem ákjósanlegum áfangastað ferðamanna og tökustað fyrir kvikmyndir. Þá mun hátíðin beina athygli að íslenskri kvikmyndagerð og menningu.

Til þessa hafa fjórir Íslendingar hlotið þessi eftirsóttu verðlaun. Hilmar Örn Hilmarsson fékk verðlaun fyrir bestu tónlistina í kvikmyndinni Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson og árið 2000 var Björk Guðmundsdóttir hlutskörpust í flokki leikkvenna fyrir hlutverk sitt í mynd Lars von Trier, Dancer in the Dark. Hún hlaut einnig áhorfendaverðlaunin það ár fyrir leik sinn og Ingvar E. Sigurðsson hlaut áhorfendaverðlaun fyrir leik í Englum alheimsins í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar.

Stjórnendur Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna hafa skoðað aðstæður í Hörpu og telja að húsið sé forsenda þess að hægt sé að halda viðburð sem þennan á Íslandi. Ráðgert er að hátt í 1.400 gestir verði viðstaddir verðlaunahátíðina sjálfa og að sýnt verði beint frá henni, hér heima og víða erlendis. Tímasetning hátíðarinnar hentar vel en desember er sá mánuður þar sem einna líklegast er að slíkir viðburðir hafi jákvæð áhrif á ferðaþjónustu og atvinnulíf auk þess sem margvísleg tækifæri gefast til þess að vekja athygli á íslenskri menningu.

Hátíðin fór fram í Sevilla á Spáni á síðasta ári en hún hefur einnig farið fram í London, París, Róm, Barcelóna, Varsjá, Kaupmannahöfn, Tallin, Möltu, Riga og Wroclaw, svo dæmi séu nefnd.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum