Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skýrsla um um lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016

Kynningarfundur um rannsóknarskýrslu um lífskjör og fátækt barna á Íslandi árin 2004 til 2016. - mynd

Í dag var kynnt rannsóknarskýrsla um lífskjör og fátækt barna á Íslandi árin 2004 til 2016. Skýrslan var unnin af Kolbeini Stefánssyni félagsfræðingi.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að á heildina litið eru lífskjör barna á Íslandi góð í samanburði við flest önnur Evrópulönd. Það brýnasta, samkvæmt skýrslunni, er að bæta lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra sem og að huga að börnum öryrkja. Fátækt barna er algengust meðal barna þessara hópa. Bent er á að staða á húsnæðismarkaði hafi veruleg áhrif á lífskjör barna, sér í lagi barna fyrrgreindra hópa og að lífskjör barna hafi versnað hlutfallslega meira en lífskjör eftirlaunaþega og öryrkja í kjölfar hrunsins. Árið 2016 hafi börn átt lengra í land með að ná aftur lífskjörum ársins 2008 en aðrir hópar. Versnandi lífskjör barna á tímabilinu skýrast helst af lækkuðum atvinnutekjum heimila barnanna og batnandi lífskjör í uppsveiflu af vaxandi atvinnutekjum.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, var viðstaddur kynningu á skýrslunni í dag og segir:

„Skýrslan dregur upp þá mynd að staða barna hafi því miður dregist hvað mest aftur úr á þeim árum sem hún tekur til. Það er slæmt til þess að líta að einn viðkvæmasti hópur þjóðfélagsins hafi dregist aftur úr í lífskjörum umfram aðra hópa og er skýrslan sterk áskorun um að leggja töluvert meiri áherslu á þennan hóp enda er hann framtíð landsins. Börnin hafa ekki eins sterka rödd til þess að berjast fyrir eigin réttindum svo það þurfum við sem eldri erum að gera fyrir þau“.

Skýrslan er mikilvægt innlegg í þá vinnu sem nú stendur yfir í málefnum barna. Það starf er leitt af félags- og barnamálaráðherra en í því taka þátt fulltrúar allra þingflokka auk hundruða annarra sem starfa við málefni barna. Þá er einnig við störf stýrihópur í málefnum barna sem skipaður er fulltrúum sex ráðherra, en honum er m.a. ætlað að annast verkefni sem varða málefni barna en skarast milli málefnasviða þeirra ráðuneyta sem að hópnum standa (sjá viljayfirlýsingu um aukið samstarf í þágu barna).

Áhersla þessarar vinnu er m.a. aukinn stuðningur við fjölskyldur til þess að tryggja hagsmuni barna, ekki síst þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu. Mikilvægt er fyrir þá vinnu sem fram fer að hafa viðmið um hver staða barna í þjóðfélaginu er til þess að vita hvar skóinn kreppir helst. Skýrslan er mikilvægt innlegg í það starf.

„Ég þakka fyrir skýrsluna, en hún er mikilvægt innlegg í starfið sem er framundan í málefnum barna. Málefni barna hafa nú fengið veglegri sess í félagsmálaráðuneytinu. Það er ófullnægjandi að börn búi við fátækt og ójöfnuð og mun vinnan í málefnum barna sem framundan er taka mið af þeim upplýsingum sem fyrir liggja í skýrslunni“, segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

  • Kynningarfundur um rannsóknarskýrslu um lífskjör og fátækt barna á Íslandi árin 2004 til 2016. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum