Hoppa yfir valmynd
11. mars 2019 Félagsmálaráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra flytur 50 milljónir til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins

Ásmundur Einar Daðason, félags og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að gera breytingar á forgangsröðun í fjárlögum yfirstandandi árs og voru í því skyni fluttar 50 milljónir króna til að styrkja starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Sú ráðstöfun er hugsuð til frambúðar.

Hlutverk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins er að tryggja að börn með alvarlegar þroskaskerðingar sem leitt geta til fötlunar síðar á ævinni fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem bæta lífsgæði þeirra. Algengustu ástæður tilvísana eru grunur um einhverfu og skyldar raskanir, þroskahömlun og hreyfihamlanir.

Ásmundur Einar hefur boðað endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn með áherslu á snemmtæka íhlutun og samvinnu kerfa. Er ákvörðun um að veita Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins aukið fjármagn liður í að tryggja að hægt sé að bregðast við vanda barna eins fljótt og kostur er. „Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er mikilvægur hlekkur í því að tryggja snemmtæka íhlutun í málefnum barna og munum við sjá frekari merki um áherslur í þessa veruna á næstu mánuðum,“ segir Ásmundur Einar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira