Hoppa yfir valmynd
11. mars 2019 Heilbrigðisráðuneytið

​Staðreyndir um mislinga á heimsvísu

Merki Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) - myndWHO

Dauðsföllum af völdum mislinga á heimsvísu fækkaði um 80% milli áranna 2000 og 2017 vegna aukinnar áherslu á bólusetningu. Áætlað er að bólusetning fyrir mislingum hafi komið í veg fyrir 21,1 milljón dauðsfalla á þessu árabili. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur tekið saman staðreyndir um mislinga og bólusetningu við þeim og segir stofnunin bólusetningu við sjúkdómnum með ábatasömustu fjárfestingum til að efla lýðheilsu.

Bóluefni við mislingum var fyrst kynnt til sögunnar árið 1963. Í samantekt WHO segir að fyrir þann tíma og áður en farið var að bólusetja fyrir mislingum í ríkum mæli hafi alvarlegir mislingafaraldrar brotist út á tveggja til þriggja ára fresti og valdið um 2,6 milljónum dauðsfalla ár hvert.

Þrátt fyrir að bóluefni við mislingum sé bæði öruggt og ódýrt drógu mislingar yfir 110.000 manns til dauða í heiminum árið 2017, að stærstum hluta börn yngri en fimm ára. Árið 2000 fengu um það bil 72% barna í heiminum bólusetningu við mislingum við eins árs aldur en árið 2017 var hlutfallið komið í 85%.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvetur þjóðir til að halda vöku sinni til að sporna við útbreiðslu mislinga og standa vörð um þann árangur sem náðst hefur með stöðugri árvekni og markvissum aðgerðum.

Embætti landlæknis hefur tekið saman spurningar og svör um mislinga og birt á vef sínum www.landlaeknir.is. Á vef embættisins eru einnig birtar tilkynningar um stöðu mála eftir því sem efni standa til í kjölfar þess að mislingar greindust hér á landi nýlega. Þar segir að á samráðsfundi sóttvarnaryfirvalda í morgun, mánudaginn 11. mars, hafi komið fram að ekki hafa greinst ný tilfelli mislinga. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum