Hoppa yfir valmynd
13. mars 2019 Utanríkisráðuneytið

Nýr opinn EES-gagnagrunnur kynntur á morgunfundi með ASÍ og SA

Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins ræddu ávinning atvinnulífsins af EES-samningnum - mynd

Utanríkisráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands stóðu í morgun fyrir fundi um stöðu EES-samningsins, ávinning og áskoranir honum tengdar. Á fundinum var einnig kynntur nýr opinn EES-gagnagrunnur þar sem EES-gerðir eru aðgengilegar á einum stað. Í ár eru 25 ár síðan samningurinn tók gildi og gagnagrunnurinn mikilvægt skref í átt að auknu gagnsæi.

„Ég ætla að hefja þennan fund á því að fullyrða að EES-samningurinn sé mikilvægasti viðskiptasamningur sem við Íslendingar höfum gert og ég held því raunar fram að EES-samningurinn sé einn allra mikilvægasti alþjóðasamningur í sögu okkar sem fullvalda þjóðar,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson í opnunarávarpi sínu. „Í stuttu máli erum við aðilar að því sem hentar okkur best en það sem okkur yrði mest íþyngjandi stendur fyrir utan.“

Guðlaugur Þór sagði mikilvægt að halda til haga staðreyndum um samninginn þar sem því miður væri mikið um rangfærslur í umræðunni á Íslandi. Hann fjallaði einnig um bætta hagsmunagæslu stjórnvalda á vettvangi sem miðar meðal annars að aukinni aðkomu á upphafsstigum innleiðingar og forgangsröðun þeirra mála sem brýnast er að íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðilar komi að. Hann sagði þó samninginn síður en svo hafinn yfir gagnrýni og sagði stjórnvöld sífellt leita leiða til að bæta framkvæmd hans.

Þau Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, og Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA, ræddu mikilvægi EES fyrir atvinnulífið. Í máli þeirra kom fram að hagvöxtur og velsæld í landinu hafi aukist til muna á þeim tíma sem liðinn er frá gildistöku samningsins. Fyrir lítið hagkerfi eins og Ísland hafi aðgangur að innri markaðnum og samræmt regluverk skipt sköpum. Þótt erfitt væri að meta áhrif samningsins til fjár megi áætla að ávinningur tollfríðinda á útflutningsvörur Íslands væri að minnsta kosti 30 milljarðar króna á ári. Þá hafi Íslendingar aðgang að margfalt stærri vinnumarkaði með frjálsu flæði fólks innan EES og mikill meirihluti erlends launafólks sem starfar hér í dag komi frá EES. Án þeirra væru lífsgæði okkar allra lakari og mannlíf okkar fábreyttara.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, ræddi vannýtt tækifæri og hagsmuni launafólks í tengslum við EES-samninginn. Sagði hann norræna módelið grunninn að velgengni Norðurlandanna innan EES-samstarfsins þar sem saman færu opin samfélög og hagkerfi sem byggja á miklum alþjóðlegum samskiptum og viðskiptum og samfélagsgerð sem er undirstaða velsældar. Samningurinn snúist ekki aðeins um sameiginlega markaðinn. Honum hafi líka fylgt  bætt réttindi launafólks, neytendavernd og aukin tækifæri til vísinda- og menntasamstarfs. Þá sé aukin samvinna á sviði umhverfismála mikilvæg. Halldór sagði samtök launafólks hafa tækifæri til að koma að hagsmunagæslu bæði við stefnumótun og innleiðingu samningsins en gera mætti betur í þeim efnum. Hann lagði áherslu á aukið samstarf og samráð stjórnvalda og samtaka launafólk ekki síst er varðar félagslega stoð EES-samningsins bæði hér á landi og á Evrópuvísu.

Kristín Halla Kristinsdóttir, sérfræðingur á viðskiptaskrifstofu ráðuneytisins, kynnti nýjan gagnagrunn og upplýsingaveitu um EES-samninginn sem eru nú aðgengileg á vef Stjórnarráðsins á slóðinni EES.is. Í gagnagrunninum má finna upplýsingar um EES-gerðir, frá mótun EES-gerða á vettvangi ESB allt þar til gerðir eru teknar upp í EES-samninginn og málsmeðferð sem þeim tengjast hjá Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum. Gagnagrunnurinn mun auka gagnsæi og auðvelda samstarf um hagsmunagæslu á sviði samningsins. 

Að lokum tóku Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins, Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins þátt í pallborði. Í máli þeirra kom fram að aðkoma sveitarfélaganna, sem eiga fulltrúa í Brussel, hafi í gegnum tíðina verið mikilvæg og að samtök launafólks og atvinnulífs hafi þónokkur tækifæri til að hafa áhrif á innleiðingarferlið. Þótt þau væru sammála um að hagsmunagæslan væri nú á réttri leið mætti enn bæta samráð og forgangsraða verkefnum. Þá væri hægt að nýta betur tækifæri til þátttöku í nýsköpunarverkefnum og þekkingarútflutningi. 

Nánar:

  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti opnunarávarp.
  • Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ
  • Pallborðsumræður
  • Kristín Halla Kristinsdóttir kynnir nýjan EES-gagnagrunn
  • Davíð Þorláksson, Samtökum atvinnulífsins
  • Ásdís Kristjánsdóttir, Samtökum atvinnulífsins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira