Hoppa yfir valmynd
20. mars 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Heimild fyrir rekstri neyslurýma verði leidd í lög

Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem kveður á um lagaheimild til að stofna og reka neyslurými hefur verið lagt fram á Alþingi. Markmiðið með rekstri neyslurýma er að draga úr skaðlegum afleiðingum af notkun ávana- og fíkniefna.

 

Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um ávana- og fíkniefnum sem gerir embætti landlæknis kleift að heimila sveitarfélagi að stofna og reka neyslurými að uppfylltum nánari skilyrðum sem heilbrigðisráðherra setur um rekstur þeirra, svo sem um þjónustu, hollustuhætti, hæfni starfsfólks og upplýsingagjöf. Neyslurými er skilgreint í frumvarpinu sem „lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar sem eru 18 ára og eldri geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna og þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.“

Jákvæð reynsla annarra þjóða

Neyslurými eru ætluð sem skaðaminnkandi úrræði sem felst í því að draga úr heilsufarlegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar ávana- og fíkniefna án þess endilega að draga úr notkun þeirra. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að reynsla annarra þjóða sýni jákvæð áhrif af neyslurýmum sem úrræði. Bent er á minni úrgang vegna notaðs sprautubúnaðar sem skilinn er eftir á víðavangi og bætt heilsufar þeirra sem nýta sér rýmin. Notkun þeirra hefur m.a. dregið úr tíðni HIV-smita og lifrarbólgu C og færri en ella deyja vegna neyslu á of stórum skammti. Fram hefur komið að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Evrópusambandið telja neyslurými mikilvægan þátt í að draga úr smitsjúkdómum og dauðsföllum vegna neyslu of stórra skammta.

Ávinningi af neyslurýma hefur verið skipt í þrennt, þ.e. persónulegan ávinning fyrir notendur, samfélagslegan ávinning sem sést best á umgengni á almenningsstöðum og loks fjárhagslegan ávinning sem felst aðallega í styttri legutíma á sjúkrahúsum, snemmbúnum inngripum og lægri lyfjakostnaði vegna meðferðar við HIV-smiti og lifrarbólgu C.

Undirbúningur að opnun neyslurýmis í Reykjavík hefur staðið yfir um skeið. Fyrir liggur að velferðarsvið Reykjavíkurborgar muni taka þátt í verkefninu og í fjárlögum þessa árs eru 50 milljónir króna ætlaðar til þessa málefnis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira