Hoppa yfir valmynd
26. mars 2019 Forsætisráðuneytið

Frumvörp um að upplýsingalög nái til allra þátta ríkisvalds og vandaða starfshætti í vísindum afgreidd í ríkisstjórn


Ríkisstjórnin afgreiddi tvö frumvörp frá forsætisráðherra sem gert er ráð fyrir að verði lögð fram á Alþingi fyrir mánaðamótin á fundi sínum í morgun.

Annars vegar er um að ræða afrakstur af vinnu nefndar um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Er þar um að ræða frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum nr. 140/2012. Helsta breytingin sem felst í frumvarpinu er að upplýsingalög nái til löggjafar- og dómsvalds en ekki einungis til stjórnsýslunnar eins og verið hefur. Jafnframt er kveðið skýrar á um skyldu ráðuneyta til að birta upplýsingar úr málaskrám að eigin frumkvæði. Sérstakur ráðgjafi starfi hjá stjórnvöldum til hliðar við úrskurðarnefnd upplýsingamála með það að markmiði að bæta upplýsingamiðlun og hraða afgreiðslu mála.

Hins vegar er um að ræða frumvarp sem fjallar um vandaða starfshætti í vísindum en lengi hefur verið rætt í vísindasamfélaginu hér á landi að þörf sé á að efla vitund um siðferðilegar hliðar rannsókna. Til staðar þurfi að vera úrræði til að skera úr um ef vafamál rísa, m.a. vegna trúverðugleika rannsókna hér á landi í alþjóðlegu samhengi og eflingu á vitund um siðferðilegar hliðar rannsókna. Við samningu frumvarpsins var horft til nýlegrar löggjafar í Noregi og Danmörku. Lögð er áhersla á meginábyrgð vísindamanna, stofnana og fyrirtækja við að fara eftir slíkum viðmiðum. Jafnframt verður skipuð óháð nefnd sem mun skrá viðmið um heiðarleg vinnubrögð í vísindum og gefa álit í vafamálum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Með þeim frumvörpum sem ríkisstjórnin afgreiddi í morgun er stigið mikilvægt skref í átt að gagnsærri stjórnsýslu og þau tengjast öðrum frumvörpum sem nú þegar eru til umfjöllunar á Alþingi eða á leið þangað, svo sem um tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna og bætur vegna ærumeiðinga. Ef þessi löggjöf hlýtur brautargengi erum við langt komin með að uppfylla fyrirheit í þingsályktun um að skipa Íslandi í fremstu röð varðandi reglur á þessu sviði. Þá gerir frumvarpið um vandaða starfshætti í vísindum ráð fyrir að við skipum okkur á bekk með öðrum Norðurlandaþjóðum sem hafa sett lög um heilindi í vísindum og stofnað óháðar nefndir til að veita álit í vafamálum.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira