Hoppa yfir valmynd
26. mars 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Íslensk tunga og barnamenning í öndvegi: framlög til menningarmála

Framlög til menningar, lista, íþrótta- og æskulýðsmála hafa aukist að undanförnu en í fjármálaáætlun 2020-2024 er ráðgert að framlög til málefnasviðsins verði á bilinu 14,4-15,5 milljarðar kr. á tímabilinu. Framlögin lækka við lok tímabilsins þegar máltækniverkefni stjórnvalda lýkur.   - mynd

Meginmarkmið stjórnvalda á sviði menningar og lista er að jafna og bæta tækifæri til nýsköpunar í menningar- og listastarfsemi. Sérstök áhersla er lögð á mikilvægi barnamenningar og á málefni íslenskrar tungu. Framlög til menningarmála nema um 15 milljörðum kr. á ári samkvæmt fjármálaáætlun 2020-2024 en á tímabilinu er gert ráð fyrir fjármagni til að efla söfn og faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna. Þá hækka framlög til menningarmála með nýjum stuðningssjóði vegna útgáfu bóka á íslensku og með tímabundnu framlagi sem veitt er til nýstofnaðs Barnamenningarsjóðs Íslands.

Í menningarstefnu stjórnvalda er lögð áhersla á aðgengi að menningarstarfi og verndun menningararfs. Aðgengi ólíkra þjóðfélagshópa, kvenna og karla, að menningu eykur lífsfyllingu, víðsýni og umburðarlyndi og þátttaka í menningarstarfi eykur vitund um lýðræði, réttlæti og sögulegt samhengi. Menningarstarf um land allt hvetur til félagslegra samskipta og dregur úr hættu á menningarlegri einangrun einstaklinga og hópa. Í undirbúningi er gerð nýrrar menningarstefnu sem og heildarstefna í kvikmyndamálum.

Meðal verkefna sem unnið er að:

Mikilvægi íslenskunnar
Vaxandi áhrif tölvu- og samskiptatækni á daglegt líf krefjast aðgerða til að tryggja megi að íslenskan sé gjaldgeng í samskiptum sem byggjast á tölvu- og upplýsingatækni. Ábyrgðin á því verkefni, að snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna svo hún þróist og dafni til framtíðar, hvílir hjá stjórnvöldum sem ber samkvæmt lögum að varðveita og efla íslenska tungu. Unnið er að aðgerðaáætlun hvers markmið er að tryggja að íslenskan verði áfram notuð á öllum sviðum þjóðlífsins en þær aðgerðir snerta m.a. menntakerfi, menningar- og atvinnulíf. Þegar hafa verið kynntar aðgerðir til þess að styðja við útgáfu bóka á íslensku og starfsemi einkarekinna fjölmiðla.

Máltækniverkefnið
Til að tryggja að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi, rafrænum samskiptum og upplýsingavinnslu sem byggist á tölvu- og fjarskiptatækni er nú unnið eftir verkáætluninni Máltækni fyrir íslensku 2018-2022. Í því felst að þróa og byggja upp tæknilega innviði sem nauðsynlegir eru til þess að brúa bil milli talmáls og búnaðar, s.s. talgreini, talgervil, þýðingarvél og málrýni/leiðréttingarforrit. Verkáætlunin er að fullu fjármögnuð en áætlaður heildarkostnaður ríkisins við hana er áætlaður 2,2 milljarðar kr. á tímabilinu.

Vísindasafn fyrir börn og ungmenni
Skoðaður verður möguleiki þess að setja á stofn barna- og vísindasafn til að efla og styrkja áhuga ungu kynslóðarinnar á menningu, vísindum og tækni. Slík söfn má finna víða í nágrannalöndunum en þar er lögð rík áhersla á virka þátttöku ungra safngesta og fjölbreyttar fræðsluleiðir.

Þjóðarleikvangar
Ný reglugerð um viðurkenningu þjóðarleikvanga setur málefni þjóðarleikvanga í formlegt ferli þar sem íþróttasambönd sækja um slíka viðurkenningu í samstarfi við viðkomandi sveitarfélag. Áfram verður unnið að samstarfsverkefni stjórnvalda, Reykjavíkurborgar og Knattspyrnusambands Íslands sem snýr að mögulegri uppbyggingu þjóðarleikvangs í Laugardal.

Minjavernd

Með auknum skyldum stjórnvalda í minjavernd er áskorun í því fólgin að efla stjórnsýslu svo unnt sé að vernda menningarminjar með markvissum hætti. Til þess að svo megi verða þarf að efla gagnagrunna, upplýsingaveitur og miðlun gagna um skráðar minjar. Hætta er á að þekking á sögulegum arfi þjóðarinnar glatist ef skráningu friðaðra fornleifa er ekki sinnt. Stjórnvöld munu móta stefnu um verndun fornleifa og byggingararf þjóðarinnar og miðla upplýsingum um hann til almennings og stjórnvalda.

Geymsluhúsnæði safna
Leysa þarf til langrar framtíðar geymsluvanda þjóðarsafnanna. Brýnast er að bæta geymsluhúsnæði Listasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands. Geymslumál Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins þarfnast einnig úrlausnar. Aðgerðir munu m.a. beinast að lausnum eins og að nota fjargeymslur sem eru í nokkurri fjarlægð frá megin starfsstöðvum.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira