Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skýrsla starfshóps varðandi raforkuflutning í dreifbýli og þrífösun rafmagns

Erla Sigríður Gestsdóttir, Bjarkey Olsen, Haraldur Benediktsson og Hólmfríður Sveinsdóttir afhenda Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur skýrsluna - mynd

Í maí 2017 skipaði ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar starfshóp til að greina möguleika og gera tillögur um úrbætur á raforkuflutningskerfi í dreifbýli með áherslu á þrífösun. Starfshópurinn hefur nú skilað skýrslu sinni. Þriggja fasa kerfi raforku hefur aukist jafnt og þétt frá aldamótum, úr því að vera 37% upp í 72% árið 2018. Þegar starfshópurinn hóf störf gerðu áætlanir dreifiveitna ráð fyrir að lokið yrði við þrífösun dreifikerfis raforku árið 2034. Ljóst er að skortur á þriggja fasa raforku hefur víða staðið atvinnuþróun fyrir þrifum, m.a. hjá mjólkurbúum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu.

Sérstakt átaksverkefni um þrífösun rafmagns var í síðasta mánuði kynnt í fimm ára fjármálaáætlun, fyrir árin 2020, 2021 og 2022, til að mæta brýnustu þörf á úrbótum í þrífösun, með áherslu á Skaftárhrepp og Mýrar. Í gildandi byggðaáætlun, sem samþykkt var á Alþingi sl. sumar, er gert ráð fyrir 400 m.kr. framlagi til þrífösunar rafmagns á næstu árum.

Í skýrslu starfshópsins er lagt til að útfært verði átaksverkefni til næstu fimm ára. Greint verði í samstarfi við sveitarfélög forgangsröðun framkvæmda og samlegðaráhrif með ljósleiðaraframkvæmdum. Markmiðið er að fyrir árið 2024 verði að mestu lokið við að mæta forgangskröfum um úrbætur á sviði þrífösunar.

Starfshópurinn skoðaði einnig gjaldskrár dreifiveitna í dreifbýli og þéttbýli og tekjumarkasetningu þeirra. Starfshópurinn leggur til að teknar verði til frekari skoðunar hugmyndir um sameiningu gjaldskrár dreifiveitna, með það að markmiði að ná fram betri jöfnun á dreifikostnaði raforku á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Slík vinna er nú þegar hafin í samráði við Orkustofnun.

Starfshópurinn vakti athygli á góðu samstarfi ráðuneyta samgöngu- og sveitarstjórnarmála og atvinnuvega- og nýsköpunar, þar sem byggðaáætlun er nýtt til uppbyggingar mikilvægra raforkuinnviða í dreifðum byggðum.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra: „Aðgengi að þriggja fasa rafmagni er mikilvæg forsenda jákvæðrar byggðaþróunar á landsvísu og það er ánægjulegt að nú hafa verið lagðar fram tillögur að aðgerðum sem sýna hvernig við munum fyrir árið 2024 geta lokið við að mæta forgangskröfum um úrbætur vegna þrífösunar, í stað 2034 eins og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.“

 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum