Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra fjallaði um norræna baráttu gegn sýklalyfjaónæmi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gerði grein fyrir vinnu Norrænu ráðherranefndarinnar gegn auknu sýklalyfjaónæmi á þingi  Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í dag. Norðurlandaþjóðirnar hafa aukið samstarf sitt í þessum efnum, enda er sýklalyfjaónæmi alvarlegt og vaxandi heilbrigðisvandamál í heiminum.

Ísland fer með formennsku í ráðherranefndinni á þessu ári og leiðir því samstarfið á öllum sviðum. Það kemur því í hlut Svandísar að kynna forgangsverkefni í samstarfi þjóðanna til að sporna við sýklalyfjaónæmi. Meðal verkefna sem hún mun leggja sérstaka áherslu á er markviss fræðsla og upplýsingagjöf til heilbrigðisstarfsfólks og almennings með skýrum skilaboðum um skynsamlega notkun sýklalyfja en það samræmist tillögum um aðgerðir sem settar eru fram í hvítbók Norðurlandaráðs um samstarf hvað þetta varðar.

Norrænir ráðherrar heilbrigðismála, landbúnaðar- sjávarúrvegs og matvæla stóðu saman að yfirlýsingu um minni og ábyrgari notkun sýklalyfja árið 2015 þar sem sérstaklega er fjallað um hvernig best sé að nálgast vinnuna og með áherslu á að norræn gildi séu höfð til hliðsjónar samhliða alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Í kjölfarið var settur á fót norrænn stýrihópur um málið. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er formaður stýrihópsins sem starfar í nánu samstarfi við norrænan hóp sérfræðinga á þessu sviði. Árið 2017 gaf Norðurlandaráð út hvítbókina; Norðurlöndin taka höndum saman gegn sýklalyfjaónæmi þar sem tilgreindar eru tólf tillögur um sameiginlegar aðgerðir Norðurlandaþjóðanna til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

Útgáfa hvítbókarinnar og tillögurnar sem þar koma fram hafa  sett aukinn þunga í samstarf þjóðanna gegn sýklalyfjaónæmi. Tillögurnar fela meðal annars í sér áherslu á leiðir til að flýta greiningu sýkinga svo sjúklingar fái strax rétta meðhöndlun, leiðir til að ákvarða og innleiða bestu mögulega notkun sýklalyfja þegar sýklalyfjameðferð er nauðsynleg og leiðir til að draga úr notkun sýklalyfja með skynsamlegri og viðeigandi notkun þeirra. Tillögurnar snúa að allri notkun sýklalyfja, hvort sem er í heilbrigðiskerfinu eða í tengslum við matvælaframleiðslu eða dýrahald. Af fleiri tillögum má nefna skipulögð átaksverkefni til að fræða almenning um hættuna sem stafar af óhóflegri sýklalyfjanotkun, mikilvægi þess að nota þau skynsamlega og fleiri þætti sem mikilvægir eru til að sporna gegn sýklalyfjaónæmi. Norræna ráðherranefndin á einnig í samstarfi við Norðvestur-Rússland um heilbrigðismál og hefur nú verið ákveðið að leggja áherslu á sýklalyfjaónæmi í því samstarfi.

  • Heilbrigðisráðherra ávarpar norræna samráðherra
  • Frá þingi Norðurlandaráðs

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira