Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skattalegt umhverfi þriðja geirans styrkt

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað starfshóp til að fara yfir skattalegt umhverfi þeirrar starfsemi sem fellur undir þriðja geirann, þ.e. starfsemi sem fellur hvorki undir einkageirann né opinbera geirann, s.s. starfsemi íþróttafélaga, björgunarsveita, góðgerðarfélaga og mannúðarsamtaka, með það að markmiði að styrkja skattalegt umhverfi hans.

Annað markmið með vinnunni er að stuðla að auknu samræmi starfseminnar við sambærilega starfsemi í nágrannaríkjum okkar. Innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur farið fram grunnskoðun á þessum þætti. Komið hefur í ljós að í ákveðnum tilvikum eru skattundanþágur víðtækari fyrir starfsemi sem fellur undir þriðja geirann í nágrannaríkjum okkar heldur en hér á landi. Sem dæmi má nefna að í Danmörku, Noregi og Svíþjóð eru undanþágur til staðar vegna fjármagnstekna og gjafa frá einstaklingum til góðgerðarfélaga. Þá liggur jafnframt fyrir að regluverk er varðar skattlagningu á starfsemi sem fellur undir þriðja geirann hefur í grunninn staðið óbreytt í langan tíma.

Starfshópnum er ætlað að leggja fram tillögur að breytingum, e.a. á reglugerðum og lögum sem gilda um skattlagningu á þeirri starfsemi sem fellur undir þriðja geirann eða telst til menningarstarfsemi. Starfshópurinn skal hafa að leiðarljósi að skattalegt umhverfi geti eflt og styrkt það mikilvæga starf sem unnið er af þúsundum sjálfboðaliða um allt land. Sérstaklega verði horft til þess að enn frekar verði hvatt til þess að einstaklingar og lögaðilar leggi starfsemi þriðja geirans lið. Leitast verði við að auka samræmi í lögum og reglum við sambærilega starfsemi í nágrannaríkjum okkar, þar sem það er til bóta.

Starfshópinn skipa:

  • Willum Þór Þórsson, formaður
  • Börkur Arnarson
  • Guðrún Inga Sívertsen
  • Guðrún Ögmundsdóttir
  • Helga Jónsdóttir
  • Óli Björn Kárason

Starfshópurinn skal ljúka störfum eigi síðar en 15. júní 2019.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum