Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra á ársfundi Íslandsstofu

Guðlaugur Þór Þórðarson á ársfundi Íslandsstofu í dag - myndÍslandsstofa

Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra undirstrikaði þýðingu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið í ávarpi sínu á ársfundi Íslandsstofu í morgun.

Ný lög um Íslandsstofu tóku gildi í lok júní 2018. Markmið þeirra er að skerpa ábyrgð atvinnurekenda á stefnumótun og framkvæmd markaðssetningar Íslands og enn fremur á þjónustu við sókn fyrirtækja á alþjóðamarkaði. Á ársfundi Íslandsstofu, sem fram fór í Hörpu í morgun, flutti Guðlaugur Þór Þórðarson ávarp þar sem hann rakti hugmyndina að þessum sameiginlega vettvangi atvinnulífs og stjórnvalda til að sækja fram á erlendum mörkuðum. 

„Það er grundvallaratriði í þessum hugmyndum að útflutningsþjónusta og markaðsstarf fyrir Ísland byggist á langtímastefnumótun sem mörkuð er í breiðri samvinnu allra er hagsmuna eiga að gæta og sé ákvörðuð af æðstu ráðamönnum í samstarfi við atvinnulífið,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðunni. 

Ný stjórn Íslandsstofu tók til starfa 1. september síðastliðinn og var Pétur Þ. Óskarsson ráðinn framkvæmdastjóri. Utanríkisráðherra kvaðst vænta mikils af störfum Péturs og hans samstarfsfólks. Um leið þakkaði hann Jóni Ásbergssyni, sem áður gegndi framkvæmdastjórastöðunni, fyrir hans öfluga starf að útflutningsmálum Íslendinga. 

Í ræðu sinni áréttaði Guðlaugur Þór svo þátt utanríkisverslunar í hagsæld íslensku þjóðarinnar og í því sambandi vék hann sérstaklega að þýðingu EES-samningsins. „Ný lífskjarasókn fyrir næstu kynslóðir felst í því að opna nýja markaði en ekki að loka þeim sem fyrir eru. Ný lífskjarasókn fyrir næstu kynslóðir felst í því hafa áfram nánast óheftan aðgang að okkar kjölfestumarkaði um leið og við leitum nýrra tækifæra á vaxandi mörkuðum. Ný lífskjarasókn felst í því að íslensk fyrirtæki geta áfram keppt og þróast á kjölfestumarkaði sínum á jafnræðisgrundvelli og notað samkeppnishæfni sína til að sækja fram á nýjum mörkuðum. Ný lífskjarasókn mun byggja á því að unga fólkið okkar geti áfram sótt sér þekkingu og reynslu á grundvelli þeirra réttinda sem það nýtur samkvæmt EES-samningnum,“ sagði Guðlaugur Þór.

Auk utanríkisráðherra fluttu stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Íslandsstofu ræður á ársfundinum. Þá var efnt til örmálstofu sem bar yfirskriftina „Vegsemd þess og vandi að vera Íslendingur“. Edda Hermannsdóttir, samkskipta- og markaðsstjóri Íslandsbanka stýrði fundinum en fimm konur úr atvinnulífinu voru þátttakendur í málstofunni.  

 
  • Frá ársfundi Íslandsstofu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira