Hoppa yfir valmynd
3. maí 2019 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ný heildarlög um skóga og skógrækt samþykkt á Alþingi

Liðin eru 64 ár frá því að síðustu heildarlög um skógrækt voru samþykkt á Íslandi.  - mynd

Alþingi samþykkti í gær ný lög um skóga og skógrækt. Þetta er fyrsta heildarendurskoðun eldri laga sem eru frá árinu 1955.

Verulegar breytingar hafa orðið á löggjöf og alþjóðasamningum á sviði umhverfismála síðan eldri lögin voru sett. Hér á landi hafa tekið gildi ný lög um náttúruvernd, skipulagsmál og um mat á umhverfisáhrifum. Auk þess hafa alþjóðasamningar á borð við loftslagssamninginn, samning um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og samning um varnir gegn eyðimerkurmyndun, sem allir eru á vegum Sameinuðu þjóðanna, tekið gildi.

„Það eru tímamót að nú sé búið að samþykkja ný skógræktarlög. Með þeim er mótaður mun skýrari rammi fyrir stefnumótun og skipulag skógræktar, vernd og endurheimt birkiskóga og nýtingu á ræktuðum skógi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Á grundvelli nýrra laga um landgræðslu og skógrækt verða nú unnar landsáætlanir fyrir þessa náskyldu málaflokka. Sú vinna mun skipta miklu þegar kemur að framkvæmd á alþjóðasamningum hérlendis um loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni.“

Sett eru fram ný markmið m.a. varðandi verndun náttúruskóga og aukna útbreiðslu þeirra, ræktun skóga til fjölþættra nytja og sjálfbæra nýtingu skóga. Skógræktin er sú stofnun sem hefur eftirlit með framkvæmd laganna og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.

Lögin kveða á um gerð landsáætlunar í skógrækt fyrir landið allt sem fjallar um stöðu og framtíð skóga í landinu, ásamt tölusettum markmiðum um árangur í skógrækt. Jafnframt að vinna skuli landshlutaáætlanir í samráði við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila sem útfæra þá stefnu sem fram kemur í landsáætlun.

Lögin gera ráð fyrir að Skógræktin geti tekið þátt í og stutt við skógræktarverkefni sem er á ábyrgð annarra s.s. einstaklinga, félagasamtaka eða sveitarfélaga. Sérstakur kafli fjallar um skógrækt á lögbýlum og er víkkað út frá eldri lögum hvers konar skógrækt fellur þar undir.
Sjálfbær nýting skóga er leiðarstef í nýjum lögum sem kveða á um að við fellingu skóga þurfi leyfi Skógræktarinnar. Grundvallarregla er að árleg felling í skógum landsins skal að jafnaði ekki vera meiri en árlegur vöxtur þeirra. Einnig skal umhirða og nýting skóga miðast við að skógarnytjar skili sem mestum hagrænum, félagslegum og umhverfislegum ávinningi fyrir samfélagið. Varanleg eyðing skóga er óheimil samkvæmt lögunum og skal með slík mál farið í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira