Hoppa yfir valmynd
8. maí 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Virkni lykilþáttur í að ná og viðhalda bata

Ráðherra ásamt Ingibjörgu Briem félagsráðgjafa (til vinstri) og Lindu Hrönn Þórisdóttur, formanni hópsins. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tók í dag við skýrslu faghóps um samfélagslega virkni fyrir einstaklinga með geðrænan vanda. Hópurinn var skipaður í september 2018 og hafði það hlutverk að skilgreina hvers konar þjónusta, fjármögnuð af hinu opinbera, er þörf á sviði félagsþjónustu og vinnumarkaðsaðgerða fyrir þennan hóp.

Tillögur faghópsins lúta að því að horft verði til snemmtækra inngripa og tryggt að þjónustan sé samþætt til að einstaklingar falli ekki á milli þjónustukerfa. Faghópurinn leggur áherslu á að einstaklingar með geðræn vandamál séu ólíkir innbyrðis og því þýðingarmikið að þjónustan sem boðið er upp á sé fjölbreytt og miðuð að þörfum hvers og eins. Eins leggur hann áherslu á þverfaglega nálgun sem stuðlar að nánu samstarfi heilbrigðis- og félagsþjónustu sem og vinnumála- og skólakerfis.

Á síðustu áratugum hafa komið fram mörg virkniúrræði á Íslandi fyrir einstaklinga með geðrænan vanda, en virkni er lykilþáttur í að ná aftur og viðhalda bata. Hafa þau í flestum tilvikum verið á vegum grasrótar- og félagasamtaka en að einhverju eða mestu leyti fjármögnuð af hinu opinbera.

Tilgangur virkniúrræða ætti að vera að veita einstaklingum hlutverk, rjúfa einangrun og aðstoða við að koma á og viðhalda rútínu. Að mati hópsins er mikilvægt að slík starfsemi sé notendastýrð og ekki háð tilvísunum fagaðila. Faghópurinn er sammála um að glufur séu í kerfinu þegar kemur að aðstoð, utanumhaldi og eftirfylgni við þá einstaklinga sem eru með geðrænan vanda. Þá er hópurinn sammála um mikilvægi skýrra verkferla þegar um málefni þessara einstaklinga er að ræða svo unnt sé að tryggja að hver og einn sé metinn að verðleikum í samræmi við getu, áhuga, reynslu og/eða menntun.

Faghópurinn leggur auk samþættingu kerfa og aukins gæðaeftirlits til heildstæða ráðgjafarmiðstöð í anda "headspace" til að koma til móts við þarfir ungs fólks, en aukið nýgengi örorku er áhyggjuefni þeirra á meðal. Mikilvægt er að ná til ungs fólks og erlendis hafa slíkar ráðgjafamiðstöðvar, þar sem lykilatriði er opinn aðgangur án tilvísunar, gagnast því vel. Þá telur faghópurinn mikilvægt að atvinnuþátttaka fólks með geðraskanir fái meiri stuðning og bendir sérstaklega á IPS-hugmyndafræði (e. Individual Placement and Support) í því samhengi en hún byggist á getu og áhuga einstaklings til virkni/vinnu fremur en takmörkunum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum