Hoppa yfir valmynd
9. maí 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Endurgreiðslur vegna leiðréttinga á búsetuhlutfalli hefjast

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sendi í dag bréf til Tryggingastofnunar þess efnis að stofnunin geti hafið endurútreikning örorkubóta vegna ákvörðunar búsetuhlutfalls einstaklinga sem búsettir hafa verið erlendis og innt af hendi vangreiddar bætur til þeirra sem eiga rétt á þeim. Félagsmálaráðuneytinu barst í gær erindi frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um að Tryggingastofnun geti hafið endurútreikning örorkubóta vegna búsetuskerðinga, en beðið hefur verið eftir staðfestingu þess efnis.

„Eins og mörgum er kunnugt taldi Tryggingastofnun sig ekki hafa heimildir til að hefja vinnuna en nú er búið að skýra þann þátt og er ekkert að vanbúnaði að hefjast handa við endurgreiðslur til þeirra sem málið varðar. Það er mikilvægt að málið gangi eins hratt fyrir sig og kostur er en að sama skapi að vandað verði vel til verka,“ segir Ásmundur Einar.

Í áliti umboðsmanns Alþingis frá því í júní 2018 sem varðar áhrif búsetutíma erlendis á rétt til örorkulífeyris kemst hann að þeirri niðurstöðu að lækkun greiðsluhlutfalls lífeyris vegna búsetu erlendis hafi ekki verið í samræmi við lög. Velferðarráðuneytið (nú félagsmálaráðuneytið) lýsti í kjölfarið þeirri afstöðu sinni að það væri sammála niðurstöðu umboðsmanns Alþingis og óskaði eftir því að Tryggingastofnun endurreiknaði greiðslur til hlutaðeigandi einstaklinga og leiðrétti þær sem vangreiddar hafi verið, ásamt vöxtum. Tryggingastofnun vann áætlun um hvernig ætti að standa að þeirri framkvæmd en beðið hefur verið eftir að fjallað yrði um málið í ráðherranefnd um ríkisfjármál og ríkisstjórn sem nú hefur verið gert og liggur fyrrgreind niðurstaða fyrir.

Samhliða þessum leiðréttingum hefur félagsmálaráðuneytið unnið að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar sem miðar að því að til framtíðar verði réttur til örorkulífeyris ákvarðaður í sama hlutfalli og áunnin réttindi samkvæmt raunverulegri búsetu á Íslandi fram til þess tíma að réttur til örorkulífeyris er ákvarðaður. Einnig þegar um er að ræða veitingu örorkulífeyris á grundvelli tímabila til framtíðar. Er það í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar hvað varðar einstaklinga sem flust hafa til Íslands frá Evrópska efnahagssvæðinu og kemur í veg fyrir að réttindi þeirra hér á landi verði minni en réttindi þeirra sem flust hafa til Íslands frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum