Hoppa yfir valmynd
10. maí 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherra færði Hugarafli gjöf í tilefni opnunar nýs húsnæðis

 Ráðherra ásamt Málfríði Hrund Einarsdóttur, formanni Hugarafls (til vinstri) og Auði Axelsdóttur, framkvæmdastjóra. - mynd

Nýtt húsnæði félagasamtakanna Hugarafls var opnað í dag að Lágmúla 9. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, var viðstaddur opnunina en fyrir atbeina félagsmálaráðuneytisins var á haustmánuðum 2018 gerður þjónustusamningur á milli Vinnumálastofnunar og Hugarafls.

Samningurinn gildir til 31. desember 2020 en með honum kaupir Vinnumálastofnun sértæka þjónustu Hugarafls. Er hún sér í lagi á sviði starfsendurhæfingar og hugsuð fyrir einstaklinga með geðraskanir sem þurfa öflugt utanumhald og eftirfylgni. Sérstök áhersla er lögð á ungt fólk á aldrinum 18-30 ára sem uppfyllir ekki skilyrði lokaðra endurhæfingarúrræða. Markmiðið er að veita stuðning til fólks í endurhæfingu sem vill hlúa að geðheilsunni og komast út á vinnumarkaðinn, í nám eða almennt auka lífsgæði sín.

„Hugarafl er mikilvægur hlekkur í að rjúfa félagslega einangrun sem oft skapast í kjölfar geðræns vanda. Starfsemin er til þess fallin að auka félagsleg samskipti, skapa rútínu og tækifæri til frekari virkni eins og atvinnuþátttöku eða náms,“ sagði Ásmundur Einar við opnunina.  Við sama tækifæri úthlutaði ráðherra tvö hundruð þúsund krónum af ráðstöfunarfé sínu til Hugarafls sem notendahópur samtakanna skal ákveða í sameiningu hvernig verði nýttar.

Hugarafl eru samtök fólks með geðraskanir sem starfrækja notendastýrða endurhæfingu og virknimiðstöð.  Samtökin voru stofnuð árið 2003 og eru virkir félagar rúmlega 400.  Notendahópurinn er mjög breiður hvað varðar aldur og bakgrunn og mismunandi hvort fólk hefur fengið greiningar.

Samtökin starfa eftir hugmyndafræði valdeflingar og batamódels PACE (Personal Assistance in Community Excistence). Fagfólk og notendur starfa saman og taka sameiginlegar ákvarðanir. Öll umræða fer fram á jafningjagrunni þar sem hver og einn er hvattur til að láta rödd sína heyrast, hafa skoðun og koma henni á framfæri.  Grundvallaráhersla er lögð á valdeflingu hvers einstaklings og trú á bata. Fólk getur komið að eigin frumkvæði eða eftir tilvísun fagaðila og hefur sjálft mest um það að segja hvernig það byggir bataferlið upp.  Samkvæmt úttekt Vinnumálastofnunar telja fagaðilar sem vísa á úrræðið það vera mikilvægan lið í þjónustu við fólk með geðræn vandamál.


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum