Hoppa yfir valmynd
14. maí 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Auglýst eftir veitendum geðheilbrigðisþjónustu í fangelsum

Fangelsið Hólmsheiði. - myndLjósm. Karl Petersson

Sjúkratryggingar Íslands hafa auglýst eftir áhugasömum aðila til að útfæra og veita geðheilbrigðisþjónustu við fanga í öllum fangelsum landsins. Auknir fjármunir til að efla geðheilbrigðisþjónustu við fanga eru tryggðir í fjárlögum þessa árs.

 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti fyrr á þessu ári áform sín um úrbætur á heilbrigðisþjónustu við fanga og þar með geðheilbrigðisþjónustu: „Það segir mikið um samfélag hvernig það fer með sína viðkvæmustu hópa og löngu tímabært að gera nauðsynlegar úrbætur á geðheilbrigðisþjónustu við fanga. Við viljum gera betur og er nú unnið að því að samhæfa vinnu ráðuneyta og stofnana til að tryggja föngum viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu“ sagði heilbrigðisráðherra meðal annars.

Auglýsing Sjúkratrygginga Íslands er í samræmi við samningsmarkið heilbrigðisráðuneytisins. Kveðið er á um að þjónustuveitandi hafi yfir að ráða þverfaglegu teymi heilbrigðisstarfsfólks með sérhæfingu og reynslu af geðheilbrigðisþjónustu. Fagleg yfirstjórn þjónustunnar skal vera í höndum geðlæknis með a.m.k. þriggja ára starfsreynslu.

Fangelsin sem um ræðir eru Hólmsheiði, Kvíabryggja, Litla Hraun, Sogn og Fangelsið á Akureyri með samtals um 200 pláss fyrir fanga.

Verkefnið skiptist í tvennt: Annars vegar felst það í að skipuleggja, samræma og hafa umsjón með geðheilbrigðisþjónustu í framangreindum fangelsum á Íslandi í samræmi við klínískar leiðbeiningar. Hins vegar felst verkefnið í geðþjónustu við fanga. 

Byggt er á því að heilbrigðisþjónusta við fanga sé veitt í þverfaglegri teymisvinnu og að þjónustuveitandi komi að þeirri vinnu ásamt öðrum sem sinna heilbrigðistengdri þjónustu við fanga, s.s. heilbrigðisstofnunum sem sinna heilsugæslu í fangelsum, annarri sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, sálfræðingum og félagsráðgjöfum Fangelsismálastofnunar og öðru fagfólki eftir því sem við á. Þjónustan verður útfærð nánar í samningi milli SÍ og þjónustuveitanda.

Tilkynningin var uppfærð 15. maí

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira