Hoppa yfir valmynd
17. maí 2019 Félagsmálaráðuneytið

Styrkir sem skila sér margfalt til baka

Félags- og barnamálaráðherra ásamt styrkhöfum. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, úthlutaði í dag styrkjum til atvinnumála kvenna. Alls fengu 29 verkefni styrki og nam upphæð þeirra 40 milljónum króna. Hæsta styrk, eða fjórar milljónir, hlaut Anna Bryndís Blöndal fyrir verkefni sitt Lyfjafræðileg umsjá en verkefnið felst í því að þróa hugbúnað sem gerir lyfjafræðingum og fagaðilum kleift að yfirfara lyf einstaklinga með tilliti til lyfjatengdra vandamála. Honum er ætlað að stuðla að því að hægt sé að skilgreina markmið lyfjameðferðar sjúklings, leita bestu leiða til að ná þeim og ná þannig betri yfirsýn yfir lyfjanotkun.

Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað síðan 1991. Þeir eru ætlaðir konum sem vinna að góðum viðskiptahugmyndum og verkefnum. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í meirihlutaeigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun af einhverju tagi. Samkvæmt könnun sem gerð var á styrkveitingum á árunum 2011-2016 kom í ljós að 40 prósent svarenda töldu ólíklegt að verkefnið hefði farið af stað ef styrkur hefði ekki fengist. Þegar spurt var hvort atvinnustarfsemi væri enn í gangi kom í ljós að 75% af fyrirtækjum sem fengu styrk voru enn starfandi en 25% ekki.

„Það er ljóst að styrkir til atvinnumála kvenna skipta máli og hafa á undanförnum árum stutt við fjölmörg ný verkefni og fyrirtæki sem skapa störf, samfélaginu til hagsbóta. Fjölbreytni þeirra verkefna sem hljóta styrk á ári hverju sýnir enn fremur að frumkvöðlar úr röðum kvenna leggja mikið til eflingar atvinnulífs og fjölgunar starfa á Íslandi,“ sagði Ásmundur Einar við afhendinguna.

Aðrir styrkhafar sem hlutu styrki yfir þremur milljónum króna voru Anna W.De Matos fyrir Verkfærasafn eða Reykjavík Tool Library en megin tilgangur þess er að þróa áfram verkfærasafnið Reykjavík Tool Library sem snýst um aðgengi almennings að verkfærum og vinnuaðstöðu fyrir ýmiskonar viðhald og skapandi verkefni. Almenningur getur keypt meðlimakort líkt og að bókasafni og komist þannig hjá því að fjárfesta í dýrum verkfærum. Þá er þar rekin samfélagsleg vinnustofa þar sem verkfæri eru aðgengileg og boðið er upp á ýmis hagnýt námskeið.

Eins hlaut Katrín Pétursdóttir 3.300.000 styrk fyrir verkefnið Aska en markmið þess er að þróa leirblöndur, aðferðir og hönnunarferla til framleiðslu á íslenskum duftkerjum. Lengi hefur íslenskur leir verið talinn erfiður og jafnvel ónothæfur til keramíkvinnslu. Er það meðal annars vegna hlutfalls járns í honum, mikillar rýrnunar og hættu á að hann brotni. Eitt af markmiðum verkefnisins er að nýta þessa svokölluðu galla íslensks leirs í framleiðslu duftkerja sem brotna niður í jörðu og einblína þannig á kosti fremur en galla.  

Þá hlaut Sunna B. Skarphéðinsdóttir þriggja milljón króna styrk vegna verkefnisins Örmælir sem lýtur að hönnun, framleiðslu og sölu á tæki sem mælir örsmátt vökvarúmmál snertilaust. Mælirinn er ætlaður til notkunar í heilbrigðisgeiranum og er megin tilgangur með hönnun og sölu á tækinu tíma- og efnissparnaði hjá vísindamönnum. 

Yfirlit yfir alla styrkhafa er meðfylgjandi:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira