Hoppa yfir valmynd
22. maí 2019 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpar alþjóðlega ráðstefnu á sviði kynjafræða

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Reykjavíkurdætrum - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók þátt í opnun alþjóðlegrar ráðstefnu á sviði kynjafræða í dag, ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og rappsveitinni Reykjavíkurdætrum.

Ráðstefnan er haldin af norræna tímaritinu NORA undir yfirskriftinni; Border Regimes, Territorial Discourses and Feminist Politics og var skipulögð af RIKK – rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum, Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og EDDU – Rannsóknasetri við Háskóla Íslands.

Í erindi sínu fjallaði forsætisráðherra um uppgang öfga afla í Evrópu og um það pólitíska umhverfi sem slík öfl hafa sprottið úr. Í ræðu sinni sagði forsætisráðherra meðal annars:

„Bandalag öfga hægri flokka hefur valið sér marga óvini. Ráðist er gegn innflytjendum og minnihlutahópum og þeir gerðir að blórabögglum fyrir allt sem miður hefur farið í tengslum við hnattvæðingu og nýfrjálshyggju undanfarinna áratuga. Réttindum hinsegin fólks er víða ógnað, stundum í þeim tilgangi einum að ná til trúaðra kjósenda. Annað skotmark eru femínismi og kynjafræði, og kvenfrelsi almennt. Líkamar kvenna eru dregnir inn í pólitíska umræðu með hætti sem ætti að heyra sögunni til og grafið er undan fyrri sigrum í baráttu kvenna fyrir yfirráðum yfir sínum eigin líkama.“

Forsætisráðherra fjallaði jafnframt um mikilvægi þess að berjast gegn þessum öflum og bjóða almenningi upp á aðra valkosti. Alþjóðleg samvinna væri eina leiðin til að taka á stærstu áskorunum samtímans, þar á meðal loftslagsvandanum og vaxandi ójöfnuði.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

10. Aukinn jöfnuður

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum