Hoppa yfir valmynd
27. maí 2019 Heilbrigðisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Endurskoðað stjórnskipulag við uppbyggingu Landspítala

Skóflustunga tekin að meðferðarkjarna nýs Landspítala - myndMynd: Landspítali

Ábyrgð á öllum verkþáttum sem varða uppbyggingu nýs Landspítala verður á einni hendi samkvæmt drögum að nýju skipulagi sem heilbrigðisráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa þróað. Markmiðið er að ná betri heildaryfirsýn yfir alla þætti verkefnisins þar sem í senn er horft til heildarskipulags, nýbygginga, nýtingar og aðlögunar eldri bygginga og rekstrar sjúkrahúss. Tillaga þessa efnis var samþykkt á fundi ríkisstjórnar sl. föstudag.

Uppbygging húsnæðis Landspítalans við Hringbraut er stærsta beina fjárfestingarverkefni ríkisins frá upphafi. Lykilforsenda uppbyggingarinnar er sú að flutningur allrar meginstarfsemi Landspítala í nútímalega innviði á einn stað, feli í sér mikil tækifæri til að auka gæði, hagkvæmni og árangur þjónustunnar, ásamt því að bæta aðstæður starfsfólks. Mikilvægt er að stjórnun þessa umbreytingaverkefnis sé bæði heildstæð og markviss.

Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir fjárveitingum til uppbyggingar meðferðarkjarna, rannsóknahúss, bílastæða-, tækni- og skrifstofuhúss, tengibrúa, bílakjallara við Sóleyjartorg, tækni- og stoðkerfa og þyrlupalls. Auk þessara þátta mun verkefnið einnig ná til uppbyggingar göngudeildarhúss, tengibygginga milli nýbygginga og eldri bygginga, viðhalds eldri bygginga, tækjakaupa auk ráðstöfunar og sölu þeirra bygginga sem spítalinn mun ekki hafa þörf fyrir þegar nýjar byggingar verða teknar í notkun.

Í ljósi umfangs og mikilvægis er ljóst að rýna þarf og eftir atvikum endurskoða eldri útreikninga og forsendur um nýtingu húsnæðis og vænt rekstrarhagræði sem leiða mun af uppbyggingunni. Í þessu ljósi réðust heilbrigðisráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið í að meta núverandi skipulagi í samvinnu við helstu ábyrgðaraðila, auk þess sem fundað var með einstaklingum sem hafa mikla reynslu af verkefnastjórn stórra framkvæmda. Niðurstaðan var sú að endurskoða þyrfti skipulag verkefnisins, styrkja heildarsýn, endurmeta megináætlanir, færa einum aðila ábyrgð á stjórnun allra verkþátta og byggja upp aukna getu til að stýra verkefninu. Einnig að styrkja þurfi og afmarka skipulag einstakra verkþátta.

Samkvæmt tillögu ráðuneytanna að nýju skipulagi verða öll verkefni við uppbyggingu Landspítala unnin undir yfirstjórn og á ábyrgð sérstaks stýrihóps með fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Landspítala. Umtalsverðar breytingar verða á hlutverkum Nýs Landspítala ohf. og Framkvæmdasýslu ríkisins.

Samkvæmt tillögunni skiptist verkefnið í fjóra meginþætti:

  1. Hlutverk, rekstur og umbætur: Að skilgreina þörf Landspítala fyrir húsnæði til lengri tíma og móta áætlanir um rekstur og umbætur í starfsemi á grundvelli heilbrigðisstefnu.
  2. Þarfagreining: Að endurmeta skipulag svæða (e. Master Plan), taka ákvarðanir um nýtingu eldri bygginga og um ráðstöfun bygginga sem ekki verða nýttar til starfsemi Landspítala.
  3. Byggingar: Að hanna nýbyggingar og eldri byggingar í ljósi breyttrar nýtingar, bjóða framkvæmdir út, hafa eftirlit með verklegum framkvæmdum og gera skilamat.
  4. Innleiðing: Að vinna áætlanir um tæki og búnað og stýra flutningum í nýja innviði.

Umtalsverð vinna er eftir við mótun og útfærslu nýs skipulags og verður það verkefni sett í algjöran forgang. Sérstaklega þarf að móta samspil verkefnaskipulagsins undir forystu stýrihóps og verkefna Nýs Landspítala ohf. sem falla undir stjórn félagsins.

Stýrihópurinn verður skipaður hið fyrsta og falin nánari útfærsla á nýju skipulagi í samráði við ráðuneytin tvö og aðra aðila sem að verkefninu koma.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira