Hoppa yfir valmynd
28. maí 2019 Dómsmálaráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Skýrsla og viðbrögð vegna skipulagðrar brotastarfsemi

Embætti ríkislögreglustjóra hefur nú birt áhættumatsskýrslu greiningardeildar um skipulagða brotastarfsemi á Íslandi en þar kemur fram að skipulögð brotastarfsemi sé alvarlegasta ógn við samfélag og einstaklinga á Íslandi að frátöldum náttúruhamförum. Þá er heildarhættustig varðandi skipulagða brotastarfsemi merkt „gífurleg áhætta“ sem er hæsta áhættustig matskerfisins.

Dómsmálaráðherra og forsætisráðherra hafa þegar brugðist við niðurstöðum skýrslunnar og fyrirsjáanlegri þróun þessara mála hér á landi með því að skipa sérstakan samráðshóp sem skilgreina skuli nauðsynlegar aðgerðir, forgangsröðun þeirra og fjármögnun. Í hópnum sitja fulltrúar dómsmálaráðuneytis, forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis og eiga niðurstöður að liggja fyrir innan nokkurra mánaða.

„Það er mjög mikilvægt að bregðast við þeirri stöðu sem lýst er í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra af festu og ábyrgð. Aðgerðirnar ná yfir mörg málefnasvið og því eru fjögur ráðuneyti sem koma að samráðshópnum sem hefur það brýna hlutverk að greina aðgerðir, forgangsraða og fjármagna svo ráðast megi til verka sem fyrst. Þessari ógn við samfélag og einstaklinga á Íslandi verður mætt, með samhentu átaki ríkisstjórnarinnar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra.

Það hefur þegar verið gripið til ýmissa aðgerða til að mæta skipulagðri brotastarfsemi en umfangsmiklar breytingar hafa verið gerðar á löggjöf, stjórnsýslueftirliti, greiningum og sakamálarannsóknum vegna gruns um peningaþvætti. Þá hefur landamæraeftirlit þegar verið eflt með fjölgun landamæravarða og upplýsingatækni til að auka öryggi landamæra. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru veittar 80 milljónir króna til að efla löggæslu vegna skipulagðrar brotastarfsemi. Dómsmálaráðherra hefur einnig mælt fyrir frumvarpi á Alþingi til laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi sem mun auðvelda mjög upplýsingaskipti milli stofnana í löggæslutilgangi. Þá kynnti ráðherra á dögunum áherslur stjórnvalda gegn mansali sem nú er verið að hrinda í framkvæmd ásamt nýrri löggæsluáætlun sem miðar að því að byggja upp og efla alla löggæslu í landinu á faglegan og gagnsæjan hátt.

Skýrsla greiningardeildar um skipulagða glæpastarfsemi 2019

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira