Hoppa yfir valmynd
3. júní 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sveitarfélögum kynnt ný stjórntæki hins opinbera í húsnæðismálum

Frá Ísafirði - myndHugi Ólafsson

Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun hófu fundaröð um húsnæðis- og byggingarmál í vikunni sem leið og munu á næstu vikum funda með sveitarfélögum um allt land. Er það í samræmi við áherslur Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um að efla samvinnu ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að stefnumótun í húsnæðis- og byggingamálum og skipan húsnæðismála.

Tilgangur fundanna er jafnframt að kynna tvö ný stjórntæki hins opinbera; húsnæðisáætlanir sveitarfélaga og byggingargátt sem koma til með að skipta sköpum þegar kemur að húsnæðismálum framtíðarinnar. Þeim er meðal annars ætlað að gera það kleift að greina þörf fyrir húsnæði, gera áætlanir til þess að mæta þeirri þörf og fylgjast með því hvort verið sé að byggja húsnæði í samræmi við þörf á hverjum tíma.

Hlutverk Íbúðalánasjóðs hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum vegna breytinga á lögum um húsnæðismál og fer stofnunin í dag með framkvæmd húsnæðismála hér á landi. Húsnæðismál og þar með talið Íbúðalánasjóður heyra undir félagsmálaráðuneytið. Um síðustu áramót var gerð sú breyting innan Stjórnarráðs Íslands að mannvirkja- og byggingarmál og þar með Mannvirkjastofnun fluttust frá umhverfisráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins. Tilgangurinn var að efla enn frekar stjórnsýslu á húsnæðis- og byggingamarkaði en hlutverk Mannvirkjastofnunar er meðal annars að framfylgja lögum um mannvirki og tryggja samræmt byggingareftirlit.

Að beiðni Ásmundar Einars hafa Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun nú tekið höndum saman og hafið fyrrnefnda fundaröð.  Fundirnir eru ætlaðir forsvarsmönnum sveitarfélaganna og þeim aðilum sem vinna að skipulags- og byggingarmálum hjá þeim og koma að skráningu gagna í byggingagátt Mannvirkjastofnunnar. Gert er ráð fyrir því að fundaröðin standi til 21. júní.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum