Hoppa yfir valmynd
4. júní 2019 Utanríkisráðuneytið

Mannréttindamál og tvíhliða samskipti rædd á fundi með You Quan

Guðlaugur Þór Þórðarson og You Quan í utanríkisráðuneytinu í morgun - myndUtanríkisráðuneytið
Tvíhliða samskipti Íslands og Kína, málefni norðurslóða og mannréttindamál voru á meðal umræðuefna á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og You Quan, háttsettum embættismanni í miðstjórn kínverska Kommúnistaflokksins, sem haldinn var í utanríkisráðuneytinu í morgun.

Á fundinum var farið yfir framkvæmd fríverslunarsamnings Íslands og Kína en nýverið voru undirritaðar bókanir við samninginn sem opna ný tækifæri fyrir útflutning á íslenskum framleiðsluafurðum til Kína. Málefni norðurslóða voru jafnframt til umræðu, en Kína er meðal áheyrnarríkja í Norðurskautsráðinu sem Ísland stýrir næstu tvö árin. Loftslagsmál og samstarf á sviði jarðhita var jafnframt til umfjöllunar og tæpt var á norrænu samstarfi við Kína sem hefur farið vaxandi á umliðnum árum, en Ísland leiðir þetta samstarf nú um stundir,. 

Umræða um mannréttindi var jafnframt fyrirferðarmikil á fundinum, en bæði ríki eiga sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Tók Guðlaugur Þór sérstaklega upp mótmæli námsmanna í höfuðborg Kína árið 1989, en í dag er þess minnst að 30 ár eru liðin frá voðaverkunum sem þá voru framin á Torgi hins himneska friðar.

„Ísland situr í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og mannréttindi eru grunnstef í utanríkisstefnu Íslands. Mannréttindamál eru því iðulega á dagskrá á fundum mínum með erlendum ráðamönnum þar sem við á. Kína er aukinheldur orðið eitt helsta efnahagsveldi í heimi og áhrif landsins á alþjóðavísu afar mikil. Auknum áhrifum fylgir aukin ábyrgð, meðal annars í mannréttindamálum, og minni kynslóð er í fersku minni óhugnaðurinn sem átti sér stað á Torgi hins himneska friðar hinn 4. júní 1989,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson. 
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira