Hoppa yfir valmynd
5. júní 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Fyrsti ársfundur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Frá fyrsta ársfundi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins - myndMynd: Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins„Hér fyrir þig“ eru ný einkunnarorð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem kynnt voru á ársfundi stofnunarinnar í liðinni viku. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræddi í ávarpi um margþætt og mikilvæg hlutverk heilsugæslunnar, helstu áskoranir í heilbrigðismálum og tækifærin sem felast í forvörnum og heilsueflingu þar sem heilsugæslan getur haft mikil áhrif. Ársskýrsla Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kom út í tilefni ársfundarins og er aðgengileg á vef stofnunarinnar.

 

„Heilsugæslan er í sókn. Nýtt fjármögnunarkerfi var tekið upp og lofar góðu. Það þarf engu að síður að þróa það áfram þannig að það þjóni sem best hlutverki sínu sem sanngjarnt hvatakerfi sem stuðlar að markvissri, góðri og skilvirkri heilbrigðisþjónustu fyrir notendur“ sagði heilbrigðisráðherra meðal annars í ávarpi sínu. Sem dæmi um fjölbreytta þjónustu heilsugæslunnar nefndi ráðherra sykursýkismóttökur, endurhæfingu í heimahúsum, heilsuvernd eldri borgara, ungbarnavernd og mæðravernd að ógleymdu mikilvægi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við menntun heilbrigðisstarfsmanna. Ráðherra gerði að umtalsefni hve Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins legði mikla rækt við að kynna notendum þjónustu sína og veita þeim gagnlegar upplýsingar. Eins nefndi hún sérstaklega gáttina Heilsuvera.is sem er í mikilli sókn og stöðugt fleiri færa sér í nyt.

Bætt aðgengi íbúa að þjónustu heilsugæslunnar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisinsÍ skýrslu Óskars S. Reykdalssonar, forstjóra stofnunarinnar, um starfið 2018 kom fram að markvisst hefur verið unnið að því að bæta aðgengi íbúa að þjónustu HH meðal annars með opnum móttökum og hjúkrunarvakt allan daginn. Þetta hefur dregið úr álagi á Bráðamóttöku Landsspítala en heimsóknum á heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði úr liðlega 342 þúsundum árið 2015 í tæplega 467 þúsund árið 2018. Hann greindi frá aukinni þjónustu stöðvanna á árinu. Geðheilsuteymi vestur tók til starfa, sálfræðiþjónusta var aukin á öllum stöðvum og aukin áhersla var á geðheilsu í mæðravernd, ung-og smábarnavernd og heilsuvernd skólabarna. Óskar sagði mannauð heilsugæslunnar grunnforsendu starfseminnar.  „Við treystum á mannauðinn og höfum lagt áherslu á að hugsa vel um vinnustaðinn og það er lykilatriði að fólkið okkar sé ánægt í vinnunni.“

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum