Hoppa yfir valmynd
12. júní 2019 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Endurskoðaðar áætlanir um úthlutanir Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga árið 2019

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt nokkrar tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um endurskoðaðar áætlanir um úthlutanir Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga á árinu 2019.

Almenn jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að áætlaðri úthlutun almennra jöfnunarframlaga til reksturs grunnskóla fyrir árið 2019. Áætlunin var endurskoðuð í apríl sl. en vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 34/2018, Grímsnes- og Grafningshreppur gegn íslenska ríkinu, varð að endurskoða áætlunina að nýju. Í fyrri áætlun var tekið mið af 10 gr. reglugerðar nr. 1088/2018 sem kveður á um skerðingu framlaga en í endurskoðaðri áætlun er það ekki gert og þar af leiðandi er ekkert sveitarfélag sem fær skert framlag á árinu 2019.

Að tillögu ráðgjafarnefndar nemur áætluð heildarúthlutun almennra jöfnunarframlaga til reksturs grunnskóla í ár 9.130 m.kr. Þar af eru leiðréttingar á framlögum ársins 2017 að fjárhæð 60 m.kr.

Áætlun um greiðslur almennra jöfnunarframlaga árið 2019

Framlög til sveitarfélaga til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts
Ráðherra hefur einnig samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að áætluðu uppgjöri framlaga til sveitarfélaga á árinu 2019 til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts á grundvelli reglugerðar, nr. 80/2001 með síðari breytingum.

Ráðstöfunarfjármagn Jöfnunarsjóðs til greiðslu framlaganna á árinu nemur samtals um 5.000,9 m.kr. Um 60% af fyrri áætlun um úthlutun framlaga ársins komu til greiðslu mánuðina febrúar til júní eða samtals um 3.036,3 m.kr. Áætlað uppgjör framlaganna, sem nemur 1.964,6 m.kr., fer fram með þremur jöfnum greiðslum mánuðina júlí, ágúst og september, 654,9 m.kr. í hvert sinn.

Útreikningur framlaganna byggist á upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands um álagningarstofna fasteignaskatts í sveitarfélögum 31. desember 2018, sem gilda fyrir árið 2019. Við útreikning framlaganna er jafnframt tekið mið af álagningarprósentum fasteignaskatts í sveitarfélögum á árinu 2019.

Vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 34/2018, Grímsnes- og Grafningshreppur gegn íslenska ríkinu, reiknast nú ekkert sveitarfélag með skerðingu en í fyrri áætlun voru fimm sveitarfélög skert að fullu.

Áætlað uppgjör framlaga vegna lækkaðra tekna af fasteignaskatti á árinu 2019

Önnur áætlun almennra framlaga vegna málefna fatlaðs fólks 2019
Þá hefur ráðherra samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um endurskoðaða áætlun um úthlutanir framlaga vegna málefna fatlaðs fólks á árinu 2019.

Breytingar milli fyrstu og annarrar áætlunar 2019 byggja á uppfærðum upplýsingum sem borist hafa frá þjónustusvæðum. Dæmi um slíkar breytingar er lögheimilisflutningur þjónustuþega og uppfærðar kostnaðarupplýsingar. Ný áætlun verður birt í nóvember 2019.

Yfirlit yfir áætlun almennra framlaga vegna fatlaðs fólks 2019

Endanleg áætlun framlaga vegna íslenskukennslu fyrir nemendur með íslensku sem annað tungumál
Loks hefur ráðherra samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar um áætlaða úthlutun framlaga vegna íslenskukennslu fyrir nemendur með íslensku sem annað tungumál á árinu 2019, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 351/2002 að fjárhæð 358,3 m.kr. Breytingin er að mestu til komin vegna dóms Hæstaréttar frá 14. maí sl., í máli nr. 34/2018. Ekki er gert ráð fyrir að áætlunin taki frekari breytingum.

Áætlun um framlög vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál 2019

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira