Hoppa yfir valmynd
19. júní 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Breytingar á tillögu að fjármálaáætlun: Áfram vöxtur í helstu málaflokkum

Nýverið mælti fjármála- og efnahagsráðherra fyrir breytingum á fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022. Breytingarnar eru lagðar til vegna breyttra efnahagshorfa sem stafa einkum af samdrætti í ferðaþjónustu og aflabresti í loðnu. Í forsendum fjármálaáætlunar sem lögð var fram í vor var gert ráð fyrir 1,7% hagvexti árið 2019, en nú er gert ráð fyrir vægum samdrætti í ár. Þetta leiðir til þess að tekjur ríkisins dragast saman miðað við fyrri spár, bæði á árinu 2019 og næstu ár vegna minni umsvifa ferðaþjónustunnar, minni vaxtar einkaneyslu og minni atvinnuvegafjárfestingar.

Þessar breyttu horfur í hagkerfinu kalla því á viðbrögð af hálfu hins opinbera. Megininntak tillagna til breytinga á fjármálaáætlun, sem ríkisstjórnin hefur lagt til við fjárlaganefnd, er að dregið verði úr áformuðum afgangi á heildarafkomu hins opinbera í samræmi við breyttar efnahagshorfur. Samhliða er lögð áhersla á að draga úr vexti útgjalda og tryggja að afkoma hins opinbera verði hallalaus á komandi árum.

Á fyrstu tveimur starfsárum sínum hefur ríkisstjórnin aukið myndarlega við framlög til uppbyggingar á málaflokkum og til framkvæmda samhliða því að draga úr skattbyrði. Þá hafa skuldir verið lækkaðar hraðar en fjármálastefnan gerði ráð fyrir. Það hefur leitt til minni vaxtakostnaðar og gert hinu opinbera kleift að auka útgjöld til brýnna verkefna.

Áfram er gert ráð fyrir hærri framlögum til allra helstu málaflokka. Má þar nefna framlög til heilbrigðismála sem verða aukin um 27 ma.kr. á tímabili áætlunarinnar eða 28% frá árinu 2017. Framlög til félags-, húsnæðis-, og tryggingamála verða aukin um 29 ma.kr. á áætlunartímabilinu og hafa undir lok þess hækkað um 29% frá árinu 2017. Þannig er, á tímabili áætlunarinnar, gert ráð fyrir að framlög til öryrkja verði alls aukin um 10 ma.kr. og að framlög til málaflokksins verði á árinu 2024 orðin 36% hærri en þau voru á árinu 2017. Rammasett útgjöld munu eftir breytingar á fjármálaáætlun vaxa um 11,2% á áætlunartímabilinu eða um ríflega 87 ma.kr. og hafa þá vaxið um fjórðung frá útgjöldum ársins 2017.

Meginverkefni komandi ára verður að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem veittir eru til helstu málaflokka ríkisins, með endurmati útgjalda og nýjum vinnubrögðum, þar sem meðal annars er horft til aukinnar nýtingar stafrænnar þjónustu í ríkisrekstrinum.

 

 
 

*

Breyting framlaga milli áranna 2023 og 2024 skýrist fyrst og fremst af minni framlögum til framkvæmda í takt við framvindu byggingar nýs Landspítala og uppbyggingar hjúkrunarheimila

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira