Hoppa yfir valmynd
19. júní 2019 Forsætisráðuneytið, Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Ríkisstjórnin styrkir danskt-íslenskt vísindasamstarf

Nesstofa við Seltjörn - mynd
Í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í morgun að veita 8,6 millj. kr. af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu til verkefnis, tengdu Nesstofu við Seltjörn á Seltjarnarnesi, til að standa straum af átaki til að efla og heiðra danskt-íslenskt vísindasamstarf.

Markmiðið er að á merkum tímamótum taki Íslendingar og Danir höndum saman um að heiðra langvinnt og farsælt vísindasamstarf landanna og efla dansk-íslenska vísindasamvinnu og miðlun rannsókna í nútíð og framtíð. Til að skipuleggja rannsóknasamstarf þjóðanna verður myndaður þverfaglegur samstarfshópur skipuðum fulltrúum þeirra fræðasviða og rannsóknastofa sem tengjast Ferðabók Eggerts og Bjarna, m.a. náttúruvísinda, hugvísinda, félags- og heilbrigðisvísinda. Til stendur að fyrsta verkefni samstarfsins verði nýstárleg sýning í Nesstofu á Seltjarnarnesi, tengd Ferðabókinni, en hún greinir frá sameiginlegu rannsóknarverkefni Dana og Íslendinga á náttúru Íslands, staðháttum og lífi fólksins í landinu á árunum 1752-1757. Verkefnið verður unnið í samvinnu Háskóla Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og ýmissa danskra og íslenskra fræðastofnana.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira