Hoppa yfir valmynd
19. júní 2019 Forsætisráðuneytið

Úthlutað úr Jafnréttissjóði Íslands

Úthlutað úr Jafnréttissjóði Íslands - mynd

Styrkjum úr Jafnréttissjóði Íslands fyrir árið 2019 var úthlutað við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag. Markmið sjóðsins er að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Alls bárust 76 umsóknir en úthlutað var tæplega 91 milljón krónum í styrki til 17 verkefna og rannsókna.

Þrjú verkefni hlutu hvert um sig 9 milljóna króna styrki sem eru hæstu styrkirnir að þessu sinni. Dr. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði fær styrk til verkefnisins Verðmat miska vegna kynferðislegrar áreitni. Stígamót hlaut styrk vegna verkefnisins Sjúk ást sem er átak sem samtökin standa fyrir og er forvarnaverkefni gegn ofbeldi og beinist að ungu fólki á aldrinum 13 – 20 ára. Dr. Silja Bára Ómarsdóttir fékk styrk til rannsóknarinnar Árangur gegn alþjóðlegu bakslagi – þungunarrof á Íslandi og Írlandi.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti ávarp við athöfnina og sagði m.a.:

“Þekking er undirstaða þess að við getum skilgreint og framkvæmt þau nauðsynlegu verkefni sem miða að réttlátara samfélagi. Jafnréttissjóður hefur meðal annars það hlutverk að tryggja þekkingarsköpun á sviði kynjarannsókna sem eru grundvöllur vandaðrar stefnumótunar í málaflokknum.”

Forsætisráðherra minnti í máli sínu á þau tímamót þegar íslenskar konur fengu kosningarrétt í tveimur áföngum árin 1915 og 1920 og fjallaði um baráttu þeirra kvenna sem unnu ötult hugsjónastarf þegar þær kvöddu sér hljóðs um mikilvægi jafnréttis kvenna og karla til menntunar og atvinnu. Fremst fór Bríet Bjarnhéðinsdóttir, sem árið 1907 stofnaði Kvenréttindafélag Íslands. Í upphafi vakti málflutningur hennar andúð og gagnrýni samtíðarmanna en hann varð áður en yfir lauk grunnurinn að mikilsverðu framlagi til íslenskrar lýðræðisþróunar.

Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður 19. júní 2015 með samþykkt þingsályktunar í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna. Megintilgangur sjóðsins er að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Jafnréttissjóður Íslands nýtur framlaga af fjárlögum í fimm ár, 100 milljóna króna á ári, frá ársbyrjun 2016 til ársloka 2020.

Í samræmi við ályktun Alþingis og úthlutunarreglur sjóðsins leggur stjórn hans áherslu á að veita fé til verkefna sem m.a. hafa að markmiði að efla jafnrétti á vinnumarkaði, varpa ljósi á samfélags- og efnahagslegan ávinning af jafnrétti, vinna gegn kynbundnu ofbeldi, styðja við þróunarverkefni í skólakerfinu, hvetja ungt fólk til aukinnar samfélagsþátttöku og stjórnmálastarfs og varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð.

• Listi yfir styrkþega 

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur
5. Jafnrétti kynjanna
10. Aukinn jöfnuður

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum