Hoppa yfir valmynd
20. júní 2019 Forsætisráðuneytið

Allt að 900 milljónir á þremur árum fari í rannsóknir um samfélagslegar áskoranir: umhverfismál og sjálfbærni, heilsu og velferð og tæknibreytingar

Auglýst verður eftir umsóknum um styrki í markáætlun um samfélagslegar áskoranir fyrir allt að 300 m.kr. árlega á komandi árum. Vísinda – og tækniráð samþykkti tillögu forsætisráðherra um þetta á fundi sínum í Norræna húsinu í dag.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður ráðsins:

„Við stöndum frammi fyrir umfangsmiklum áskorunum til framtíðar og það sem við gerum núna mun hafa gríðarleg áhrif á lífsgæði og velsæld komandi kynslóða. Mikilvægi grunnrannsókna á loftslagsbreytingum og tæknibreytingum eykst raunar sífellt og þess vegna leggur Vísinda- og tækniráð áherslu á að markáætlun til næstu ára endurspegli það.“

Á síðasta ári voru skilgreindar samfélagslegar áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir á næstu árum í víðu samráði við almenning og hagsmunaaðila. Markmiðið var að marka áherslur Íslands fyrir þverfaglegt samstarf um rannsóknir og nýsköpun á komandi árum. Stefnt var að því að áherslurnar nýttust til að straumlínulaga betur alþjóðlegt samstarf um rannsóknir og nýsköpun, auk þess að vera leiðarljós fyrir nýjar markáætlanir og styrkveitingar úr Innviðasjóði.

Þrjár áherslur fyrir árin 2018 til 2021 voru samþykktar á fundi Vísinda- og tækniráðs 23. nóvember 2018 og byggðu þær á samráðinu. Áherslurnar eru:

  1. Umhverfismál og sjálfbærni
  2. Heilsa og velferð
  3. Líf og störf í heimi breytinga

Nánari upplýsingar um áherslurnar er að finna í minnisblaði sem samþykkt var á fundi Vísinda- og tækniráðs 23. nóvember 2018 og finna má á vefsíðu ráðsins.

Gert er ráð fyrir því að árlega mun renna á bilinu 200 -300 m. kr. í markáætlunina á komandi árum. Gert er ráð fyrir að við fyrstu auglýsingu muni helmingi fjárins verða veitt til verkefna um umhverfismál og sjálfbærni en hinn helmingurinn renni til verkefna á sviði tæknibreytinga og heilsu og velferðar. Gert er ráð fyrir að auglýst verði aftur árið 2021.

Dreifing nýsköpunarstyrkja eftir landshlutum
Þá voru niðurstöður úttektar á því hvernig opinbert fjármagn til rannsókna, þróunar og nýsköpunar dreifist eftir landshlutum, kynntar á fundi Vísinda- og tækniráðs í dag. Samkvæmt niðurstöðunum eru meginhluti stuðnings bein framlög til rannsókna hjá háskólum sem er um þriðjungur af heildarframlögum hins opinbera til háskóla. Þar á eftir koma innlendir sjóðir og annað rannsóknafé og að lokum er framlag til fyrirtækja í formi skattafsláttar vegna rannsókna og nýsköpunar. Úttektin sýnir að höfuðborgarsvæðið nýtur hlutfallslega meiri stuðnings en aðrir landshlutar en vísbendingar eru um að sá stuðningur sé ofmetinn. Framlög eru flokkuð eftir landshlutum á grundvelli staðsetningar höfuðstöðva ábyrgðaraðila verkefna, en mörg fyrirtæki og stofnanir eru með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Kannað verður með úrtaksrannsókn hve umfangsmikið þetta ofmat er. Við stefnumótun vísinda- og tækniráðs til næstu ára þarf að leggja áherslu á að landið allt njóti góðs af þeim fjármunum sem varið til rannsókna og nýsköpunar.

Vísinda- og tækniráð mótar opinbera stefnu í vísindum og tækni á Íslandi og hefur það hlutverk að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í því skyni að treysta stoðir íslensks samfélags. Forsætisráðherra er formaður ráðsins en auk hennar sitja mennta- og menningarmálaráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, heilbrigðisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra í ráðinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum