Hoppa yfir valmynd
20. júní 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Hækkun til framhaldsskólastigsins heldur sér í fjármálaáætlun

Framlög ríkisins til framhaldsskólastigsins hafa hækkað um tæpa 5 milljarða kr. á sl. tveimur árum og samkvæmt nýsamþykktri endurskoðaðri fjármálaáætlun mun sú hækkun halda sér út tímabilið 2020-2024.

Endurskoðuð áætlun felur í sér lækkun framlaga um 0,3%-0,9% á ári frá fyrri fjármálaáætlun en framlög á hvern nemanda munu hækka á tímabilinu 2020-2024 þar sem ekki er ráðgert að lækka framlög til reksturs framhaldsskóla vegna styttingar náms til stúdentsprófs.

Endurmat á framlögum nú tengist tveimur þáttum. Í fyrsta lagi fellur niður tímabundið framlag vegna sértækra verkefna sem veitt var til eins árs á fjárlögum 2019, alls 90 milljónir kr. Í öðru lagi er fyrirhugað að útgjaldasvigrúm til framhaldsskólastigsins lækki alls um 250 milljónir kr. á tímabilinu 2021-2024. Ráðgert er að sú lækkun verði gerð með aðhaldi til einstakra verkefna á málefnasviðinu en ekki með aðhaldskröfu á skólana sjálfa.

Unnið er að því að innleiða nýtt reiknilíkan fyrir framhaldsskólana sem deilir fjármagni milli þeirra á gagnsærri hátt en áður og auðveldar þeim að styðja við ákveðna nemendahópa, s.s. nemendur í brotthvarfshættu. Áhrifa endurskoðunar reiknilíkansins er þegar farið að gæta í skiptingu fjármagns milli skólanna.

Í kjölfar styttingar framhaldsskólanna hefur nemendum á framhaldsskólastigi fækkað, þeir eru nú um 22.300 í 30 skólum víðsvegar um landið. Auknir fjármunir sem runnið hafa til skólanna undanfarin ár gera þeim kleift að efla sitt skólastarf, meðal annars með því að bæta námsframboð, styrkja stoðþjónustu og endurnýja búnað og kennslutæki.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira