Hoppa yfir valmynd
22. júní 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Virkni og trú á eigin getu áberandi meðal kennara á unglingastigi; agamál stærra viðfangsefni en á Norðurlöndunum

TALIS er alþjóðleg rannsókn þar sem skoðuð eru viðhorf kennara og skólastjórnenda til starfa sinna en hún er framkvæmd reglulega á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD). Niðurstöður rannsóknarinnar, sem lögð var fyrir vorið 2018, voru kynntar í vikunni en Ísland tók nú þátt í TALIS í þriðja sinn. Kennarar og skólastjórar á unglingastigi allra grunnskóla hérlendis voru í úrtaki könnunarinnar og var svarhlutfallið um 75%.

Meðal helstu niðurstaðna rannsóknarinnar:

• Tækifæri til þess að gera gagn í samfélaginu og hafa áhrif á þroskaferil barna og ungmenna höfðu mest áhrif á ákvarðanir þátttakenda um að gerast kennarar. Einkenni starfsins, samfelldur starfsferill eða trygg afkoma höfðu að meðaltali meiri áhrif í öðrum þátttökulöndum.

• Íslenskir kennarar hafa meiri trú á sjálfum sér en aðrir kennarar á Norðurlöndum varðandi það að glæða áhuga nemenda sem eru áhugalitlir um námið, nota mismunandi námsmatsaðferðir og leggja góð verkefni fyrir nemendur.

• Íslenskir kennarar eru á heildina á litið ánægðir með starf sitt, en eru síður ánægðir með laun sín og viðhorf þjóðfélagsins til kennarastarfsins í samanburði við önnur þátttökulönd.

• Agi og bekkjarstjórnun eru stærra viðfangsefni í íslensku skólakerfi en gerist á hinum Norðurlöndunum. Ógnanir eða svívirðingar gagnvart starfsfólki skóla eru þó sjaldgæfari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.

• Íslenskir kennarar og skólastjórar virðast almennt taka meiri þátt í starfsþróunarverkefnum en gerist á Norðurlöndunum. Báðir hóparnir telja sig þó hafa meiri þörf fyrir þátttöku í slíkum verkefnum. Kennarar sækjast eftir verkefnum tengd bekkjarstjórnun, námsmatsaðferðum og kennslu í fjölmenningarlegu umhverfi.

• Íslenskir kennarar kalla eftir meiri eftir þjálfun í kennslu fjöltyngdra nemenda og nemenda með fjölmenningarlegan bakgrunn. Hlutfall skóla með fjölbreytta nemendahópa er svipað hér og á hinum Norðurlöndunum, en hérlendis telja kennarar og skólastjórar meiri þörf á slíkri þjálfun.

Menntamálastofnun hefur tekið saman skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar með áherslu á samanburð við önnur Norðurlönd. Í skýrslunni er meðal annars fjallað um starfshætti, kennsluhætti, starfsreynslu kennara, starfsþróun og hvernig kennarar og skólastjórar á unglingastigi telja að helst megi efla skólastarfið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira