Hoppa yfir valmynd
26. júní 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Alþingi samþykkir fjögur lagafrumvörp frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Alþingi samþykkti á nýloknu þingi, fjögur lagafrumvörp umhverfis- og auðlindaráðherra sem lög. Breytingarnar fela m.a. í sér að stjórn loftslagsmála er styrkt hér á landi, stutt við innleiðingu á Minimatasamningnum um að draga úr notkun kvikasilfurs, breytingar innleiddar á tilskipun um mat á umhverfisáhrifum og Umhverfisstofnun fær heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Um er að ræða breytingar á lögum um loftslagsmál, lögum um mat á umhverfisáhrifum, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og efnalögum:

Lög um loftslagsmál

 Með breytingu á lögum um loftslagsmál hefur umgjörð og stjórnsýsla loftslagsmála hér á landi styrkst. Loftslagsráð, sem hefur verið starfandi, er nú skilgreint í lögum og kveðið er á um að ráðherra skuli láta vinna áætlun um aðlögun íslensk samfélags að loftslagsbreytingum á grundvelli bestu vísindalegrar þekkingar. Sömuleiðis hefur verið lögfest að unnar skuli vísindaskýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi sem meðal annars skulu taka mið af skýrslum IPCC. Einnig er með lögunum lögð sú skylda á Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins, auk sveitarfélaga um allt land, að setja sér loftslagsstefnu og markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Lög um mat á umhverfisáhrifum

 Með breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum er innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópusambandsins um breytingu á tilskipun um mat á umhverfisáhrifum. Með breytingunni eru m.a. sett ítarlegri ákvæði um ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar, skýrari kröfur um rökstuðning Skipulagsstofnunar um ákvörðun um matsáætlun og ítarlegri kröfur um upplýsingar í frummatsskýrslu og matsskýrslu og um mótvægisaðgerðir og vöktun framkvæmda. Einnig verða m.a. lögfestar hæfniskröfur við gerð umhverfismats og yfirferð þess og ákvæði sem tryggja á að ekki verði hagsmunaárekstrar við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar auk þess sem heimilt verður nú að beita stjórnvaldssektum í ákveðnum tilvikum.

Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir

 Með breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um meðhöndlun úrgangs hefur Umhverfisstofnun nú heimild til þess að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögunum. Þá eru árleg skil rekstraraðila á upplýsingum um losun mengandi efna og hráefnanotkun samþætt og tekin verða upp rafræn skil á þessum upplýsingum. Einnig er sú breyting gerð að útgefandi starfsleyfis getur framlengt gildistíma eldra starfsleyfis tímabundið á meðan nýtt starfsleyfi er í vinnslu. Þá getur heilbrigðisnefnd falið framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits og tilteknum heilbrigðisfulltrúum heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í einstökum málaflokkum auk þess sem heilbrigðisnefndir skulu birta árlega skýrslu um starfsemi sína.

Efnalög

Með breytingu á efnalögum verða lögin skýrari og aðgengilegri. Markmiðið var enn fremur að tryggja að ákvæði í reglugerðum vegna innleiðingar á evrópsku efnalöggjöfinni og Minamatasamningnum ætti sér stoð í íslenskum lögum en Ísland fullgilti samninginn um að draga úr notkun á kvikasilfri 2018. Einnig eru nú m.a. ákvæði í efnalögum sem tengjast loftslagsmálum. Þannig fær Umhverfisstofnun heimild til beitingar stjórnvaldssekta bæði vegna brota gegn ákvæðum um magn flúoraðra gróðurhúsalofttegunda og brota gegn markaðssetningu þeirra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum