Hoppa yfir valmynd
26. júní 2019 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra fundar með framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar SÞ og mannréttindastjóra SÞ

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Filippo Grandi, framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna  - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fundaði í dag með Filippo Grandi, framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Michelle Bachelet, mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna (OHCHR).

Á fundi forsætisráðherra með Filippo Grandi ræddu þau m.a. um samstarf Íslands við Flóttamannastofnun SÞ, vaxandi fjölda og neyð flóttamanna í heiminum og með hvaða hætti alþjóðasamfélagið geti brugðist við núverandi þróun. Þá ræddu þau einnig móttöku flóttafólks á Íslandi, meðal annars um hóp LBGT-flóttafólks frá Kenýa sem er væntanlegur til Íslands á næstunni en UNHCR hefur hrósað íslenskum stjórnvöldum fyrir það hvernig staðið er að móttöku flóttamanna hér á landi.
Á fundi forsætisráðherra með Michelle Bachelet ræddu þær um stöðu mannréttindamála og afleiðingar vaxandi útlendingahaturs og hatursorðræðu. Þá snerust umræðurnar ekki hvað síst um stöðu jafnréttismála, sem nú eru til umræðu í yfirstandandi lotu Mannréttindaráðsins.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Það var töluverð áskorun fyrir Ísland að taka sæti í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í fyrra en ég tel að við höfum sett mikilvæg mál á dagskrá, bæði á sviði kvenréttinda og réttinda hinsegin fólks. Samstarf okkar við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna er okkur mikilvægt og dýrmætt að finna að okkar framlag í þeim efnum skiptir máli.“

Þá hélt forsætisráðherra ávarp við opnun sýningar um umhverfisbreytingar í Palais des Nations. Sýningin er skipulögð í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar í Genf og Fiji með þátttöku smárra eyríkja frá öllum heimshornum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, er í þriggja daga heimsókn í Genf í tengslum við júnílotu Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem jafnréttismál eru í brennidepli. Forsætisráðherra mun m.a. ávarpa Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna, taka þátt í árlegri umræðu mannréttindaráðsins um jafnréttismál og funda með yfirmönnum alþjóðastofnana.


  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra - mynd
  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum