Hoppa yfir valmynd
27. júní 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Aðgerðaáætlun á Suðurnesjum virkjuð

Fulltrúar fræðslustofnana og íþrótta- og æskulýðsfélaga á Suðurnesjum ásamt Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálararáðherra.  - mynd
Fræðslustofnanir og íþrótta- og æskulýðsfélög á Suðurnesjum gegna lykilhlutverki í aðgerðum stjórnvalda sem miða að uppbyggingu á svæðinu í kjölfar falls Wow Air nú í vor. Í framhaldi af fundi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra með íbúum Suðurnesja í apríl um atvinnu- og fræðslumál á svæðinu var stofnaður starfshópur um málið innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Hlutverk hans var að móta aðgerðaáætlun er byggði á sýn heimamanna og stjórnvalda og vinna henni brautargengis ásamt því að vakta, greina og miðla upplýsingum um stöðu og þróun mála, með sérstakri áherslu á greiningu á aðstæðum þeirra hópa sem verst stæðu.

Í gær var skrifað undir samninga um sérverkefni er því tengjast við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Keili – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, Skátafélagið Heiðabúa, Ungmennafélagið Keflavík, Ungmennafélag Njarðvíkur og Reykjanesbæ. Umfang aðgerðanna sem samið var um nú er alls tæpar 28 milljónum kr. og er um að ræða fjölþætt verkefni sem tilheyra fyrri hluta aðgerðaráætlunar stjórnvalda er snúa að menntaúrræðum á svæðinu. Meðal þeirra verkefna sem styrkt eru nú eru fjölbreytt frístundanámskeið fyrir börn á grunnskólaaldri og námskeið í tölvuleikjagerð, jöklamennsku og útivist á vegum Keilis. Þá mun Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum bjóða upp á námskeið í valdeflingu kvenna, starfsþróun, styrkingu og handleiðslu, náms- og starfsráðgjöf og íslenskukennslu fyrir útlendinga.

„Markmið okkar aðgerða er meðal annars að tryggja gott aðgengi að námi á öllum skólastigum á Suðurnesjum, að góð þjónusta sé við íbúa á svæðinu sem hafa annað móðurmál en íslensku og að ekki verði fall í þátttöku barna og ungmenna í frístundastarfi, tónlistarnámi og íþróttastarfi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. „Við eigum í góðu samstarfi við sveitarfélögin í þessu samhengi og fylgjumst vel með þróuninni á svæðinu.“

Gott samráð er einnig við aðra fræðsluaðila svo og Vinnumálastofnun sem hefur yfirsýn yfir þróun atvinnumála á svæðinu og samsetningu atvinnuleitenda.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira