Hoppa yfir valmynd
28. júní 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Árangursríkur fundur menntamálaráðherra Íslands og Færeyja

Hanna Jensen, mennta- og vísindamálaráðherra Færeyja og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. - mynd
Hanna Jensen, mennta- og vísindamálaráðherra Færeyja, fundaði í gær með Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og ræddu þær meðal annars um aukið samstarf landanna á sviði máltækni og tungumálarannsókna.

„Það var sérlega ánægjulegt að hitta samstarfsráðherrann frá Færeyjum og við áttum uppbyggilegan fund þar sem fram komu ýmsar hugmyndir um frekara samstarf. Okkur er báðum umhugað um stöðu og þróun okkar móðurmála – íslenskunnar og færeyskunnar, og Hanna Jensen er mjög áhugasöm um máltækniáætlun íslenskra stjórnvalda og íslenskar tungumálarannsóknir, til dæmis um máltöku ungra barna í breyttu tækniumhverfi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir meðal annars þingsályktun sem Alþingi samþykkti á liðnu vorþingi um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi og aðgerðaáætlun hennar, svo og verkáætlunina máltækni fyrir íslensku sem nú er unnið eftir. Á fundi ráðherranna var ákveðið að unnið verði að samstarfssamningi Íslands og Færeyja um verkefni á sviði máltækni.

Alþingi samþykkti einnig á dögunum þingsályktunartillögu um samstarf vestnorrænu landanna, Íslands, Færeyja og Grænlands, á sviði tungumála og þróunar þeirra í stafrænum heimi. Þar er lagt til að stofnaður verði starfshópur með fulltrúum landanna sem fái það verkefni að taka saman skýrslu um stöðu og framtíðarhorfur tungumálanna þriggja ásamt yfirliti um máltæknibúnað sem til staðar er fyrir hvert málanna.

Þá ræddu ráðherrarnir áframhaldandi samstarf háskóla landanna á sviði náms í starfs- og námsráðgjöf og sóknarfæri í eflingu starfs- og tæknináms sem færeysk menntamálayfirvöld vinna að í nánu samstarfi við atvinnulífið.

Hanna Jensen mun í heimsókn sinni einnig taka þátt í alþjóðlegri námsbókaráðstefnu sem skipulögð er af mennta- og menningarmálararáðuneytinu í samstarfi við Menntamálastofnun og fleiri aðila í dag.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum