Hoppa yfir valmynd
28. júní 2019 Utanríkisráðuneytið

Fundað um viðskipta- og efnahagsmál með viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna

Fulltrúar Íslands og Bandaríkjanna á fundinum - myndUtanríkisráðuneytið

Fulltrúi embættis viðskiptafulltrúa Bandaríkjaforseta (e. United States Trade Representative) og sendinefnd skipuð íslenskum embættismönnum, undir forystu utanríkisráðuneytisins, átti fund um viðskipta- og efnahagsmál í Reykjavík í gær. 

Bandaríkin og Ísland hafa í gegnum árin átt gott samstarf á sviði sviði efnahags- og viðskiptamála. Bandaríkin eru mikilvægasta viðskiptaland Íslands en heildarviðskipti landanna námu á síðasta ári yfir einum milljarði Bandaríkjadala, um 120 milljörðum króna.
Á fundinum voru rædd ýmis viðskiptatengd málefni með áherslu á viðskiptahindranir, s.s. tolla og tæknilegar hindranir, ásamt sameiginlegum hagsmunamálum á sviði alþjóðaviðskipta. Með viðræðunum í dag er tekið mikilvægt skref í að þróa áfram tvíhliða efnahags- og viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna.

Fulltrúar ríkjanna voru sammála um að þrátt fyrir náið tvíhliða samband á sviði viðskipti væri mikill ávinningur af auknu samstarfi á sviði efnahagsmála, auknum viðskiptum og fjárfestingum, og afnámi viðskiptahindrana sem myndi skila sér í meiri hagvexti og framleiðni í báðum ríkjum. Ákveðið var að halda viðræðum áfram á grundvelli samnings Bandaríkjanna og Íslands um samstarf á sviði viðskipta og fjárfestinga (TIFA) sem undirritaður var 15. janúar 2009, með það að markmiði að ljúka við gerð samnings eða fyrirkomulags sem myndi greiða fyrir viðskiptum og fjárfestingum. Fulltrúar ríkjanna sammæltust um að funda aftur síðar á árinu til að ræða áfram vöruviðskipti og önnur mál, s.s. þjónustuviðskipti, fjárfestingar og vaxandi atvinnugreinar. 

Fyrr í þessum mánuði fór fram fyrsti fundur Íslands og Bandaríkjanna í reglulegu viðskiptasamráði sem ákveðið var að koma á fót fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Reykjavík í febrúar síðastliðnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum