Hoppa yfir valmynd
28. júní 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Norrænu orkumálaráðherrarnir á einu máli um öflugt samstarf að kolefnishlutleysi

Norrænir orkumálaráðherrar - mynd

Á fundinum sögðust ráðherrarnir á einu máli um að efla enn frekar samstarfið að þeim markmiðum sem fram komu í yfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna í janúar 2019 um kolefnishlutlaus Norðurlönd. Hugmyndin er að hlutur norræns orkusamstarfs geti gert gæfumuninn til að ná hinum metnaðarfullu markmiðum yfirlýsingarinnar.

Orkumálaráðherrarnir ræddu þær nýju kröfur sem umskipti til kolefnishlutlauss hagkerfis munu gera til orkukerfisins í heild, að norrænum raforkumarkaði meðtöldum.  Hinni nýju framtíðarsýn fyrir raforkumarkaðinn, sem ráðherrarnir samþykktu á fundinum í Reykjavík, er ætlað að stuðla að því að markmiðunum verði náð.

Norðurlöndin geta verið forystusvæði

Að sögn norrænu orkumálaráðherranna munu nýsköpun og rannsóknir skipta sköpum við að þróa þær lausnir sem umskiptin krefjast. Með hliðsjón af því styðja ráðherrarnir að Norrænar orkurannsóknir kanni möguleika á því að efla aðkomu norrænu landanna með samræmdum norrænum rannsóknum. Markmiðið er að samstarfið styðji við aðgerðir landanna hvers um sig í hinum grænu umskiptum.

Einkum felst sameiginleg áskorun í umskiptum á sviði samgöngumála. Hið háa hlutfall endurnýjanlegra orkulinda á Norðurlöndum skapar löndunum góð skilyrði til að vera í fararbroddi á sviðinu, sem mun verða áherslusvið í umskiptunum.

„Vilji okkar til að stuðla með virkum hætti að því að markmiðunum í yfirlýsingu forsætisráðherranna verði náð ber vitni um að norrænt orkumálasamstarf er afar virkt og á erindi í víðum skilningi. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að Norðurlönd eru reiðubúin að efla samstarf sitt enn frekar og að við erum vel búin undir hin grænu umskipti,“ segir iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem er formaður norrænu orkumálaráðherranna á árinu 2019.

Ný og metnaðarfull framtíðarsýn um raforkumarkaðinn

Kjarni hinnar nýju framtíðarsýnar fyrir raforkumarkaðinn er að Norðurlönd skuli eigi síðar en 2030 hafa samkeppnishæfasta, mest nýskapandi og neytendavænasta raforkumarkað heims, sem muni stuðla að því að markmiðunum í loftslagsmálum verði náð.

Framtíðarsýnin var samin í samráði við aðila á norrænum raforkumarkaði. Í henni segir að norrænn raforkumarkaður eigi að vera jákvæður drifkraftur í samþættingu og þróun á evrópskum raforkumarkaði, með það fyrir augum að ná metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum.

Með hinni nýju framtíðarsýn leggja ráðherrarnir áherslu á að norrænt samstarf á raforkumarkaði sé vel í stakk búið fyrir framtíð með auknu hlutfalli óstöðugra orkulinda, svo sem sólar- og vindorku, þar sem þróun sé stýrt á grundvelli Parísarsamkomulagsins og markmiðsins um sjálfbæra orkuframleiðslu.

Samstarfið styrkir Norðurlöndin

Framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Paula Lehtomäki, er ánægð með niðurstöður fundarins og telur þær sönnun þess að orkumálaráðherrarnir séu reiðubúnir að taka næstu skref í samþættingu norræns raforkumarkaðar.

„Norðurlönd eru leiðandi á heimsvísu í sjálfbærum orkulausnum. Samstarfið, sem kristallast ekki síst í hinni nýju framtíðarsýn fyrir raforkumarkaðinn, styrkir þessa stöðu okkar nú þegar lönd heimsins eru að laga sig að kröfum Parísarsamkomulagsins. Mikilvægt er að norrænt samstarf sé öflugt tæki til að ná metnaðarfullum markmiðum landanna sjálfra. Við eigum meiri möguleika á að standa styrkum fótum í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi ef við vinnum saman,“ segir Lehtomäki.

Í Danmörku eru kosningar til þjóðþingsins nýyfirstaðnar og ný ríkisstjórn verður mynduð þann 27. júní. Því mun Danmörk afgreiða málið síðar í skriflegu ferli.

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum