Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Tímamótasamningur um öldrunarþjónustu undirritaður á Akureyri

Tímamótasamningur um öldrunarþjónustu undirritaður á Akureyri - myndMynd: ÖA/Jónatan Friðriksson

Öldrunarheimili Akureyrar (ÖA) hafa undirritað samning við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um rekstur öldrunarþjónustu.

Heilbrigðisráðherra staðfesti samninginn við undirritun hans á Akureyri sl laugardag. Með samningnum er skapað svigrúm fyrir aukinn sveigjanleika þjónustunnar til að mæta betur þörfum notenda. Þess er vænst að samningurinn verði fyrirmynd að gerð sambærilegra samninga milli SÍ og annarra rekstraraðila hjúkrunarheimila um allt land. Frá þessu er greint á vef Sjúkratrygginga Íslands.

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands og Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar undirrituðu samninginn að viðstöddum gestum á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Að undirritun lokinni var hann staðfestur af hálfu Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráherra og Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra.

Nýjar áherslur og breytt fyrirkomulag samninga

Um síðustu áramót rann út rammasamningur Sjúkratrygginga Íslands um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila sem gilt hafði frá 1. janúar 2016. Framkvæmdin fólst í því að rekstraraðilar dvalar- og hjúkrunarheimila sögðu sig inn á samninginn og skuldbundu sig þar með til að starfa á grundvelli hans og fá greitt á þeim grunni.

Með samningi SÍ og ÖA er brotið í blað þar sem gerður er sérstakur samningur á milli aðila í stað eins samnings fyrir alla rekstraraðila líkt og áður. Eins og fram kemur í samningnum er meginmarkmiðið að skapa svigrúm til sveigjanleika í öldrunarþjónustu sem gefur meðal annars kost á tímabundnum úrræðum og breytilegum þjónustutíma eftir þörfum.

Nýsköpun í öldrunarþjónustu

Öldrunarheimili Akureyrar óskuðu eftir og fengu á liðnu ári heimild heilbrigðisráðherra til að ráðast í nýsköpunar- og þróunarverkefni í öldrunarþjónustu sem í stuttu máli byggist á sveigjanlegri dagþjónustu í stað hvíldarinnlagna. Verkefnið hófst í byrjun þessa árs og hefur gefið góða raun.

Halldór, framkvæmdastjóri ÖA, segir ánægjulegt að vera með samningnum kominn með umgjörð sem styðji það markmið að laga þjónustuna betur að þörfum notenda: „Með þessu getum við betur veitt þeim sem búa heima viðeigandi stuðning sem byggir á einstaklingsmiðaðri þjónustuþörf og tryggt þeim samfellda þjónustu sem skiptir svo miklu máli“ segir Halldór.

Með því að bjóða fjölbreyttari og meiri þjónustu yfir daginn fyrir fólk sem býr heima en þarf mikinn stuðning má draga úr og/eða seinka þörf fyrir innlögn á hjúkrunarheimili. „Það hefur lengi verið opinber stefna að styðja aldraða til að búa sem lengst á eigin heimili og langflestir vilja búa heima hjá sér eins lengi og kostur er. Þau nýmæli í öldrunarþjónustu sem ÖA hafa þróað og fá nú staðfestingu með þessum nýja samningi eru mikilvægt innlegg í framkvæmd þessarar stefnu og verða vonandi öðrum fordæmi og fyrirmynd“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við undirritun samningsins á Akureyri í dag.

María Heimisdóttir segir hér vissulega um tímamótasamning að ræða bæði varðandi form og innihald: „Með því að semja við hvern veitanda þjónustu fyrir sig í stað eins samnings við alla sem vilja veita tiltekna þjónustu er opnað á þann möguleika að veitendur þrói og bæti þjónustuna umfram þær grundvallarkröfur sem hið opinbera gerir, og geti jafnvel veitt þjónustuna á hagkvæmari hátt.“

  • Tímamótasamningur um öldrunarþjónustu undirritaður á Akureyri - mynd úr myndasafni númer 1
  • Tímamótasamningur um öldrunarþjónustu undirritaður á Akureyri - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira