Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra styður áfram við starfsemi Bjarkarhlíðar

Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur tryggt áframhaldandi aðkomu  félagsmálaráðuneytisins að starfsemi Bjarkarhlíðar – þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis.

Bjarkarhlíð opnaði formlega í mars 2017 og hefur verið farsælt samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, félagsmálaráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Stígamóta, Samtaka um kvennaathvarf, Drekaslóðar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar.

Í Bjarkarhlíð er þolendum ofbeldis boðið upp á þjónustu og ráðgjöf í hlýlegu og öruggu umhverfi, þeim að kostnaðarlausu. Áhersla er lögð á þverfaglega samvinnu framangreindra aðila þar sem þolendum ofbeldis gefst kostur á að fá alla þjónustu undir sama þaki. Það auðveldar mörgum þau erfiðu skref sem stíga þarf til að leita sér aðstoðar.

Eftirspurn eftir þjónustu í Bjarkarhlíð hefur aukist með hverju ári en árið 2017 komu alls 316 mál á borð Bjarkarhlíðar. Árið 2018 voru ný mál samtals 479. Fyrstu sex mánuði þessa árs hafa 305 ný mál komið inn á borð Bjarkarhlíðar. Í flestum tilfellum er um að ræða heimilisofbeldismál og kynferðisbrotamál.

Starfsemi Bjarkarhlíðar er byggð á bandarískri fyrirmynd sem ber heitið Family Justice Center. Hugmyndafræðin er að þverfaglegt teymi fagfólks komi saman og veiti fullorðnum þolendum ofbeldis heildræna þjónustu á einum stað, þeim að kostnaðarlausu. Family Justice Center módelið hefur teygt sig til Evrópu og er Ísland áttunda landið í Evrópu sem starfar eftir því.

Frá því í apríl hefur verið starfrækt þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi að fyrirmynd Bjarkarhlíðar en hún er til húsa á Akureyri. Hún ber nafnið Bjarmahlíð en félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra sameinast um fjármögnun hennar til næstu tveggja ára.

Bæði verkefnin eru liðir í áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, sem samþykkt var á Alþingi þann 7. júní 2019.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum