Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2019 Félagsmálaráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra veitir UNICEF styrk til að bæta aðstæður barna í leit að vernd á Íslandi

 Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra. - mynd

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, skrifuðu á dögunum undir samning um verkefnið Heima: móttaka barna í leit að vernd á Íslandi frá sjónarhóli barnsins.

UNICEF gaf út skýrslu um stöðu barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Norðurlöndum á síðasta ári. Verkefninu er ætlað að fylgja niðurstöðum hennar eftir og miðar að því að bæta aðstæður barna í leit að vernd á Íslandi. Styrkur ráðuneytisins hljóðar upp á eina milljón króna.

Í verkefninu eru skoðanir barnanna sjálfra dregnar fram og reynt að varpa ljósi á það hvernig bæta megi mat á því sem barni er fyrir bestu í móttökuferlinu. Markmiðið er að koma auga á brýnasta vandann og þróa varanlegar lausnir. Verkefnið byggir á viðtölum við tæplega fjörutíu börn sem ýmist hafa komið ein til landsins eða í fylgd með foreldrum. Sömuleiðis á viðtölum við foreldra og sérfræðinga sem sinna móttöku barna. Viðtölin, sem  hafa þegar farið fram, leiddu í ljós að umfangsmesta og jafnframt brýnasta verkefnið sé að koma á fót móttökuheimili fyrir fylgdarlaus börn til að mæta grundvallarréttindum þeirra, umönnun og aðlögun. Aðrar lausnir snúa að bættri heilbrigðisþjónustu, bættri upplýsingagjöf og stuðningi við foreldra ungra barna ásamt úrbótum þegar kemur að tómstundum og annarri virkni.

Verkefnið hefur notið stuðnings félagsmálaráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins, Útlendingastofnunar, Umboðsmanns barna, Listaháskóla Íslands og Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira